Þriðja Ráðstefnuhlé Vitbrigðanna

Sigrún Elíasdóttir

Ráðstefnuhlé Vitbrigða Vesturlands var haldið í þriðja skipti laugardaginn 11. mars síðastliðinn á Hótel Bifröst í Borgarfirði. Nokkur áhersla var lögð á listviðburði og hátíðir í erindum fyrirlesara þetta árið. En eins og nafnið gefur til kynna er mikil áhersla lögð á að nóg sé af hléum inn á milli fyrirlestra því það er þá sem fólk fer að tala saman og nýjar hugmyndir verða til.

Að loknu ávarpi Sigursteins Sigurðssonar formanns VV, fékk Njörður Sigurjónsson kennari á Bifröst orðið. Hann var á sama tíma að halda upp á afmæli eiginkonu sinnar og því fengum við af honum rafræna útgáfu sem kom ljómandi vel fyrir. Njörður sagði okkur frá námi í menninga og menntastjórnun í Háskólanum á Bifröst. Í kjölfarið tók Hróðný Kristjánsdóttir, nemandi í áðurnefndu námi, við keflinu. Hrósaði hún náminu mikið og sagði okkur frá lokaverkefni hennar um gistivinnustofur sem sífellt er að fjölga um heim allan. Um er að ræða dvalarstaði með vinnuaðstöðu fyrir listamenn til að vinna að hugðarefnum sínum. Hún velti bæði fyrir sér auknum árangri listamanna við að skipta um umhverfi og kynnast öðrum í sömu sporum sem og mögulegan ávinning á samfélagið í næsta nágrenni við gistivinnustofurnar.

Logi Bjarnason myndlistarmaður sagði okkur síðan frá áhugaverðri dvöl hans í Suður-Kóreu á síðasta ári. Þar var hann, í eins konar gistivinnustofu, ásamt tugum listamanna frá Evrópu og Kóreu að vinna að listaverkum fyrir sýningu í almenningsgarði í borg nærri norður-kóresku landamærunum. Á eftir því alþjóðlega erindi flutti Geir Konráð uppfinningamaður og leikari okkur aftur til gamla Íslands með því að segja okkur þjóðsögur, vopnaður gæruskinni og staf. Það var brot úr verkinu Svartigaldur sem hann hefur þróað. Í verkinu fléttar hann saman ýmsar þjóðsögur og er sýningin nú sýnd á Söguloftinu í Landnámssetrinu bæði á íslensku og ensku.

Sigþóra Óðinsdóttir er hluti af hóp í Borgarfirði sem skipulagði listahátíðina Plan B Art Festival í Borgarnesi síðasta sumar í fyrsta skipti með það að markmiði að færa nútímalist nær fólki. Viðburðir voru margir og á nokkrum stöðum í Borgarnesi og nágrenni, oftar en ekki í rýmum sem hingað til hafa ekki verið þekkt sem sýningarstaðir. Eftir mikla vinnu og skipulag tókst hátíðin ljómandi vel og var vel sótt bæði af heimafólki og öðrum. Þess má geta að skipulag næstu Plan B hátíðarinnar er þegar hafin og er áætluð í ágúst 2017.

Þar næst fór Kári Viðarsson eigandi Frystiklefans og leikari yfir sögu fyrirtækis síns og m.a. glímuna við höfuðborgarmenningardrauginn sem virðist ekki síður vera erfiður viðureignar en Glámur forðum. En Kári er heljarmenni ekki síður en Grettir sjálfur og hefur náð að skapa frjóan jarðveg fyrir listviðburði í Rifi sem slá öll aðsóknarmet. Galdurinn, segir Kári, er að hafa heimamenn með sér í liði og miða viðburði við þeirra þarfir, aðrir gestir muni svo fylgja  í kjölfarið.

Önnur hátíð var haldin á Vesturlandi í fyrsta sinn á síðasta ári en það var hryllingsmyndahátíðin Frostbiter á Akranesi. Við fengum aðstandendur sýningarinnar, hjónin og kvikmyndagerðafólkið Ársæl Rafn Erlingsson og Lovísu Láru Halldórsdóttur, til að segja okkur frá aðdraganda hennar og fyrirkomulagi. Mikill fjöldi stuttmynda og kvikmynda í fullri lengd barst til sýningar á hátíðina og dómnefnd var til að velja bestu myndirnar. Það er líka gaman að segja frá því að önnur slík hátíð er á dagskrá hjá þeim hjónum næsta vetur enda er aldrei að vita hvenær það kemur sér vel að vita hvernig á að drepa uppvakninga. Áætlað var að Stefán Magnússon forsvarsmaður Eistnaflugs myndi deila visku sinni með Vestlendingum en hann forfallaðist því miður vegna veikinda en það varð bara til þess að við lengdum hléin aðeins.

Ekki var samt öll von úti því sannarlega fengum við visku úr austri frá hans hátign Prins Póló, öðru nafni Svavar Eysteinsson. Hann, ásamt konu sinni Berglindi Häsler, stendur að frumkvöðla- og nýsköpunarfyrirtækinu Havarí. Fyrir nokkrum árum fluttu þau úr höfuðborginni á Karlsstaði í Berufirði. Þau eru með mörg járn í eldinum, stunda sauðfjárbúskap, framleiða grænmetis pylsur, sem kallast Bulsur, rækta kartöflur og gulrófur og búa til úr þeim þurrkað snakk. Nú hafa þau einnig innréttað fjósið sem kaffihús og skemmtistað þar sem hægt er að hýsa hvers konar listviðburði. Svavar átti lokaorð þessa Ráðstefnuhlés og var tími til kominn að arka út í sólina.

Vegna fjölda áskorana tók Kári Viðarsson gítarinn með niður í Paradísarlaut og flutti þar frumsamið efni. Þar á eftir fór hluti hópsins í sund í Varmalandslaug áður en við snerum aftur í frábæran kvöldverð á Hótel Bifröst. Eftir matinn horfðum við á stutta heimildarmynd um listsköpun í Borgarnesi, Pourquoi pas Borgarnes eftir Michelle Bird og félaga. Margir félagsmenn VV eru einyrkjar og því er Ráðstefnuhléið árshátíð fyrir marga þeirra og kærkomið tækifæri til að ræða við aðra í sömu sporum, þó ekki sé nema bara um skattskýrsluna.Við í stjórninni viljum þakka öllum sem lögðu hönd á plóginn fyrir vel heppnaða ráðstefnu; starfsfólki á Hótel Bifröst, Borgarbyggð, Uppbyggingasjóði Vesturlands, öllum fyrirlesurunum fyrir góð erindi og ekki síst gestum sem gerðu það að verkum að jákvæðni ríkti í öllu.

 

Sigrún Elíasdóttir.