Þarf að breyta kerfinu?

Elsa Lára Arnardóttir

Ég fagna því að forsvarsmenn HB Granda hafi farið í viðræður við bæjarstjórn Akraness og Faxaflóahafnir um framtíðaráform fyrirtækisins á Akranesi.

Afar mikilvægt er að allir aðilar sem koma að þessum viðræðum séu í þeim af heilum hug og ekki sé um sýndarviðræður að ræða. Hér er á ferðinni gríðarlegt hagsmunamál, sem er að finna lausn í málinu svo 100 manns eigi ekki í hættu á að missa vinnuna. Ef af því yrði þá gæti það haft mikil áhrif á lífsviðurværi þessara einstaklinga, á útsvarstekjur bæjarins og þjónustu hans. Ef af yrði, þá hefði þessi aðgerð HB Granda margfeldisáhrif á bæjarfélagið Akranes.

Ef að viðræður bæjarstjórnar Akraness og Faxaflóahafna við kvótahæsta fyrirtæki landsins, skila ekki árangri þá tel ég það blasa við að endurskoða þurfi það kvótakerfi sem við búum við í dag. Það þurfi að skoða hvort hægt sé með skýrari hætti að tengja kvóta við byggðir eða auðvelda sveitarfélögum að nýta sér forkaupsrétt í þeim kvóta sem fyrir er, svo ákvörðun sem þessi ógni ekki atvinnuöryggi fjölda einstaklinga.

Við viljum auðvitað að sjávarútvegsfyrirtækin skili hagnaði og það hefur HB Grandi gert en hagnaður er mikilvægur upp á framþróun í greininni. En gerum okkur grein fyrir að frá árinu 2008 hefur fyrirtækið hagnast um 40 milljarða. Ef að svona stórt og glæsilegt fyrirtæki í sjávarútvegi vill hafa sátt um greinina þá  þurfa þau að vera tilbúin til að taka örlitlar dýfur þegar illa árar, því þau hafa fengið svigrúm í afar góðu árferði.

Það er samfélagslega ábyrgt að þingmönnum að skoða hvort það þurfi að líta til aðgerða eins og ég nefni hér að ofan. Því miður er mál HB Granda ekki það eina sem komið hefur upp en hér er um að ræða kvótahæsta fyrirtæki landsins, sem ætlar hugsanlega að grípa til aðgerða. Við því verður að bregðast.

Þessi grein er byggð upp á ræðu minni í Störfum þingsins á Alþingi, þann 5. apríl 2017.

 

Elsa Lára Arnardóttir

– þingmaður Framsóknarflokksins