Sterkir innviðir skapa sterkt samfélag

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir

Á Íslandi er mikill mannauður. Hér býr kraftmikið fólk sem skapar verðmæti í sínum störfum og með því að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd.  Allir landsmenn, hvort sem þeir búa í þéttbýli eða dreifbýli hafa þá sameiginlegu hagsmuni að allir landsmenn hafi sömu tækifæri. Átök milli landssvæða veikja samfélagið í heild. Við eigum að hafa trú á getu okkar, framtíð og samtakamætti.

Eitt hefur höfuðborgarsvæðið lengi haft umfram landsbyggðina. Það eru sterkari innviðir. Bera þar hæst samgöngur og fjarskipti. Tækniframfarir og aukinn straumur ferðamanna til landsins ættu leiða til þess að hagkvæmara er að bæta innviði á landsbyggðinni og nýta þá betur sem fyrir eru.

 

Auðurinn liggur í fólkinu

Styrkur landsbyggðarinnar liggur fyrst og fremst í fólkinu. Stærsta hagsmunamál landsbyggðarinnar í dag felst í því að styrkja innviði enn frekar, fyrst og fremst með því að bæta samgöngur og fjarskipti. Þannig skapast sömu tækifæri fyrir íbúa landsbyggðarinnar og íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa nú. Öflug fjarskiptatækni hefur gert fólki mögulegt að vinna hvar sem er. Bættir innviðir gera fólki mögulegt að skapa verðmæti og sinna vinnu eða námi þar sem það vill búa. Það er augljóst öllum að slíkar aðgerðir eru í eðli sínu varanlegar og ekki háðar plástrameðferð hins opinbera eða þvinguðum tilflutningi starfa.

 

Hlutverk stjórnmálamanna

Það er ekki hlutverk stjórnmálamanna að handstýra verðmætasköpun og atvinnu. Það hefur verið reynt víða og er ekki til eftirbreytni. Hagsmunir stjórnmálamanna eiga ekki að ráða ákvörðunum um hagsmuni landsmanna eða einstaka svæða á landsbyggðinni. Dreifbýlið getur ekki frekar en þettbýlið verið háð geðþótta stjórnmálamanna hverju sinni. Hver einstaklingur á rétt á því að vera sinn gæfu smiður.

Það er hlutverk stjórnmálanna að skapa ramma þar sem hugmyndaauðgi og nýsköpun fá að njóta sín. Þessi rammi á að hvetja fólk og fyrirtæki til framtakssemi og framkvæmda. Stjórnvöld eiga að tryggja fyrirsjáanlegar og skýrar leikreglur svo einstaklingar og atvinnulífið geti spreytt sig innan þeirra. Stjórnvöld eiga að tryggja tækifæri menntunar svo einstaklingar geti nýtt þá menntun fyrir samfélagið allt. Tryggja þarf að allir landsmenn hafi sömu tækifæri. Þetta eru verkefni stjórnmálamanna og ég er tilbúin í þau verkefni.

 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.

Höfundur sækist eftir 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.