Smá athugasemd

Sigurður Guðmundsson

Guðsteinn Einarsson hefur farið vel yfir í greinum sínum í Skessuhorni undanfarið hlut Borgarlands í að móta stefnu um nýtingu á Borgarbraut 55-59 í Borgarnesi.  Í þeim greinum kemur fram að Borgarland hafði frumkvæði af og kom með tillögu að nýjum miðbæ í Borgarnesi með byggingum þar sem blandað var saman þjónusturýmum og íbúðum. Tillagan gerði ráð fyrir miklu byggingarmagni á reitnum en þar sem Borgarland fékk ekki þau viðbrögð sem vonast hafði verið til þá snéru þeir sér að því að skipuleggja á þeirri lóð sem fyrirtækið hafði yfir að ráða, lóðinni Borgarbraut 59.  Niðurstaða af þeirri vinnu varð að áformum um byggingu á stakri íbúðarblokk með 30 íbúðum samtals 3.405m2 og 650m2 bílastæðahús, samtals byggingarmagn 4.055m2 á lóð sem var 2.700m2 að stærð, sem gerir nýtingarhlutfall uppá 1,5 ef allt er talið.

Því tel ég að það sé óumdeilt að vinna við gildandi deiliskipulag Borgarbrautar 55-59 byggðist meðal annars á vinnu Borgarlands og þeim væntingum til byggingarmagns sem Borgarland gerði til svæðisins.  Það breytir engu þar um þó að forsvarsmenn Borgarlands hafi ekki alltaf verið sammála og gert athugasemdir við vinnu sveitarfélagsins á meðan á deiliskipulags vinnunni stóð.  Niðurstaða skipulagsvinnunar var að samþykkt var deiliskipulag þar sem heimilt var að byggja staka íbúðarblokk á Borgarbraut 59 með 30 íbúðum og byggingaráform Borgarlands pössuðu innan skipulagsins.

Ég lagði fram spurningu í grein minni til Kaupfélags Borgfirðinga um hvaða hagsmuni þeir telji sig vera að verja með andstöðu sinni á framkvæmdir á Borgarbraut 57-59 sem byggðist meðal annars á þeirra eigin vinnu?  Guðsteinn Einarsson kaupfélagsstjóri virðist ekki vilja eða geta svarað spurningunni fyrir hönd félagsins. Því fer ég fram á það við stjórn Kaupfélags Borgfirðinga að hún svari spurningu minni.

 

Virðingarfyllst

Sigurður Guðmundsson

Höf. er íbúi og skattgreiðandi í Borgarbyggð.