Skip, bátar og alþýða Íslands

Steini Pje

Nú hefur Kútter Sigurfari verið geymdur í fjóra áratugi á Akranesi. Eikarbátur þessi var byggður 1885 í Bretlandi og gerður út frá Íslandi fram til 1919 en þá hófst hálfrar aldar saga bátsins í Færeyjum. Það var svo sr. Jón M. Guðjónsson á Akranesi sem hafði forgöngu um að fá kútterinn heim. 1974 unnu Kiwanismenn á Akranesi við að koma Sigurfara fyrir á athafnasvæði Byggðasafnsins í Görðum.

Því ber að fagna að nú gengst Byggðasafnið í Görðum á Akranesi fyrir viðamikilli ráðstefnu þar sem mikilvægi Sigurfara fyrir Skagamenn er eitt af meginþemunum. Það verður spennandi að fylgjast með ráðstefnunni dagana 23. og 24. febrúar næstkomandi. Sérstaklega hlakka ég til þess að taka þátt í vinnustofu á fimmtudeginum en hún fer fram á íslensku (ráðstefnan sjálf er að öðru leyti á ensku). Í mínum huga snýst spurningin sem þar verður sett fram um mikilvægi varðveislu Sigurfara fyrir íbúa á Akranesi, óbeint um þá almennu spurningu hvort ekki sé vilji til að varðveita okkar merku fiskiskip sem færðu okkur björg í bú.

Fræðilegir fyrirlestrar verða á ensku enda koma fyrirlesarar erlendis frá.  Mikill fróðleikur og þekking mun verða þar í boði.  Vonandi fáum við sem ekki ráðum yfir nægilega góðri enskukunnáttu, fyrirlestrana eða það helsta á íslensku eftir ráðstefnuna, þannig mun það nýtast mörgum.  Von mín er að við hefjum skipavernd á hærra plan, gerum skipavernd jafn hátt undir höfði og húsavernd.  Breyta þarf þeim þröskuldi í lögum, um verndun minja, að aðeins skip byggð fyrir 1950 séu fornmunir og séu merkileg og styrkhæf.  Nær væri að hafa, skip 50 ára og eldri.

Kveðja að norðan,

Þorsteinn Pétursson, Steini Pje Húna II