Sjálfsblekking Framsóknarþingmanna!

Guðsteinn Einarsson

Framsóknarþingmenn og fleiri telja nú að það bjargi efnahag heimilanna að banna vísitölutengd lán.

Fleira er vísitölutengt en lán t.d. lífeyrisgreiðslur gamla fólksins.  Ef svo hefði ekki verið í hruninu, þá hefði fjárhagslegur skellur þess fólks orðið mun verri en hann varð.

Lausnin felst ekki í banni við vísitölutengingu lána eins og Framsóknarþingmenn halda. Niðurstaða þess verður aðeins að færri fjölskyldur geta fjárfest í mannsæmandi íbúðarhúsnæði, vegna mun hærri vaxta og þá um leið þyngri greiðslubyrði óverðtryggðra lána.

Vandinn er ónýt mynt, sem þarf belti, axlabönd og bleyju sér til halds og trausts í formi gjaldeyrishafta og annarra varúðartækja Seðlabankans sem og langvarandi efnahagslegri óstjórn.

Betra væri að hér væri nothæf alþjóðleg mynt fyrir allan almenning, mynt eins og formaður Framsóknarflokksins geymdi sínar eignir í og hafði sínar tekjur af á Tortola, laus frá vandamálum krónunnar.

Það mundi leiða til lægri vaxta og bættrar afkomu almennings og fyrirtækja en er ekki „hokus pokus“ lausn byggð á pólitískri tækifærismennsku.

 

Borgarnesi, 8. ágúst 2016

Guðsteinn Einarsson