Öflugt félagsstarf aldraðra í Brún

Magnús B Jónsson

Félag aldraðra í Borgarfjarðardölum er félagskapur eldra fólks í Borgarfjarðarsýsla norðan Skarðsheiðar svo og Hvítársíða og Þverárhlíð í Myrasýslu en auk þess getur hver sem er gengið í félagið óháð búsetu. Félagar geta orðið allir sem náð hafa sextíu ára aldri. Félagið heldur uppi öflugu félagsstarfi fyrir félagsmenn sína í Félagsheimilinu í Brún í Bæjarsveit. Þar eru félagsfundir hvern miðvikudag frá haustnóttum og til vors og hefjast fundir um klukkan 13:30. Starfsemin samanstendur af nokkrum föstum viðburðum svo sem réttarsúpu á réttardegi Oddsstaðaréttar, sviðamessu í nóvember og þorrablóti á miðjum þorra. Auk þess sem félagið minnist dags íslenskrar tungu og fagnar aðventunni með sérstökum jólafundi.

Á almennum fundum ræða félagsmenn um landsins gagn og nauðsynjar, upplestur um ýmsan fróðleik og skemmtilegar frásagnir eru ómissandi þáttur fundanna auk þess sem ljóð dagsins er lesið. Þá er gjarnan tekið í spil og stundum spiluð félagsvist, leikið boccia og gerðar líkamsæfingar undir leiðsögn. Ekki má undanskilja frábærar veitingar sem eru reiddar fram á fundum. Þá eru farnar dagsferðir haust og vor auk veglegrar sumarferðar vítt og breitt um landið.

Félagið er áhugaverður félagskapur fyrir alla þá sem unna samvistum og samskiptum manna í millum og áhuga hafa á innihaldsríku og gefandi viðfangsefnum á efri árum. Öllum sem vilja leggja félaginu lið er tekið fagnandi og vilji fólk kynnast okkur betur er um að gera að mæta á félagsfundina í Brún til að sjá og heyra.

 

Magnús B Jónsson