Nei vegtollar – Já komugjöld

Björn Fálki

Umræðan síðastliðnar vikur hefur beinst að samgönguáætlun og hvernig eigi að fjármagna öll þau mikilvægu verkefni sem þar eru. Það er ljóst að það vantar fjármagn og það þarf að finna það á einhvern hátt og sýnist mér á umræðunni að vegtollar verði fyrir valinu í einhverjum tilfellum a.m.k. Ég spyr af hverju er ekki sett komugjald á ferðamenn sem hingað koma? Hætta þeir allir við að koma?

 

Dæmi um vegtoll og komugjald.

  1. Ferðamenn (4 saman í bíl) aka í gegnum Hvalfjarðargöng í mars 2017 og greiða fyrir það 1.000 kr og ætla má að þau taki Hvalfjörðinn aðra leiðina eða fara hringinn í kringum landið og greiða þar af leiðandi ekki frekari gjöld.
    Niðurstaða: Spölur ehf fær 1.000 kr í kassann frá ferðamönnunum í mars 2017.
  2. Íslendingur sem sækir nám eða vinnu í Reykjavík fimm daga vikunnar kaupir fyrirfram 100 ferðir á 28.300 kr og fær ferðina á 283 kr eða 566 kr fram og til baka.
    Niðurstaða: Spölur ehf fær 13.018 kr í kassann frá Íslendingnum í mars 2017.
  3. Komugjald 5.000 ISK pr. ferðamann (4 saman í bíl)
    Niðurstaða: Ríkissjóður fær 20.000 kr í kassann frá ferðamönnunum í gegnum komugjöld í mars 2017.

 

Mín persónulega skoðun er sú að hætta með vegtolla og leggja á komugjald sem yrði 5.000 kr pr. ferðamann sem kemur til Íslands hvort sem það sé með flugi eða sjóleiðina. Ýmsar útfærslur er hægt að hafa s.s. börn greiða ekkert komugjald, komugjaldið gildir í ákveðinn tíma o.s.frv.
Ef þetta gjald hefði verið sett á 2011, á sama tíma og samgönguáætlun var gefin út og gildir fyrir árin 2011-2022, má gera ráð fyrir 22.682.439 ferðamönnum sem gerir tekjur af komugjaldi rúmlega 113 milljarðar króna, með fyrirvara þó um að einhver hluti af þessum ferðamönnum eru börn yngri en 18 ára og myndi þetta þá lækka eitthvað ef börn fá afslátt af gjaldinu.

Við getum ekki lagt þetta gjald á afturvirkt, en gætum byrjað í dag og þá má gera ráð fyrir að árin 2017-2022 komi u.þ.b. 16,5 milljón ferðamenn til landsins sem skila þá tæpum 83 milljörðum í komugjöld sem mætti nýta í uppbyggingu á ferðamannastöðum og í vegaframkvæmdir.

Árið 2017 eru settir 17 milljarðar í vegaframkvæmdir. Þó vantar 10 milljarða til að uppfylla samgönguáætlun sem samþykkt var á þingi fyrir áramót. Það fjármagn væri hægt að fá með komugjöldum þar sem spár gera ráð fyrir 2,4 milljónum ferðamanna árið 2017 sem gera 12 milljarða íslenskra króna í komugjöld árið 2017.

 

Björn Fálki