Minni reglur og meira frelsi

Reynir Eyvindsson

Það olli mér smá pirringi um daginn, að alltaf þegar ég opnaði facebook var Guðlaugur Þór þar með keypta auglýsingu  um sjálfan sig.  Prófkjör sjálfstæðismanna var í gangi.  Þar lýsti hann því að sjálfstæðisstefnan væri „svona minni reglur og eftirlit og meira frelsi.“

Það er rétt að sjálfstæðismenn vilja minni reglur og eftirlit, en þýðir það endilega meira frelsi?  Ef við tökum dæmi úr fótboltanum:  Segjum að það sé haldið Íslandmót í knattspyrnu, og það sé ákveðið allt í einu, ekkert auglýst og spilað yfir eina helgi.  Þá er ekkert verið að hugsa um reglur um góðan fyrirvara.  Margir gætu augljóslega ekki mætt.  Væri þetta „frjáls samkeppni?“

 

Sjálfstæðisstefnan í reynd

Ástæðan fyrir því að ég tek þetta bjánalega dæmi, er að þetta hefur einmitt gerst í tíð ríkisstjórnarinnar sem Guðlaugur Þór styður. Núna þegar fasteignaverð er á beinni leið upp, þótti Flokknum gráupplagt fyrir ríkið að losa sig við hlut sinn í fasteignafélaginu Reitum.  Landsbankinn var fenginn til að selja.  Þar er valinn sjálfstæðismaður í hverju rúmi eftir að bankinn var seldur innvígðum flokksmönnum hér um árið. Bankinn komst að því að best væri að selja eignirnar á föstu verði, sem er það sama og er skráð í Kauphöllinni *), og selja eigurnar yfir eina helgi. Auglýsing um söluna birtist síðdegis á föstudegi og það var búið að selja næsta mánudag, 22 ágúst.  Ekki fékkst upp gefið hverjir keyptu hlutina.

Hvað finnst ykkur?  Eru hugsjónir um frjálsa samkeppni þarna að baki?  Nei, þarna eru menn einfaldlega að rífa til sín eigur Ríkisins (okkar allra) og gera það með leynd.  Þetta er hin raunverulega sjálfstæðisstefna.

 

Annað dæmi er kvótakerfið: 

Færeyingar bjóða nú upp kvóta.  Það hefur verið reiknað út að ef íslenska þjóðin fengi jafn mikið á kílóið og fékkst útúr því uppboði, fengjust 83 milljarðar fyrir kvótann **)  Útgerðarmenn borga nú 4,8 milljarða.   Í tíð vinstristjórnarinnar var gjaldið u.þ.b. 10 milljarðar.  Núverandi ríkisstjórn var fljót að lækka gjaldið.  Hagnaður Samherja var 14 milljarðar á síðasta ári.  Það er gott þegar fólki gengur vel, en þau fyrirtæki sem eru raunverulega í frjálsri samkeppni geta ekki sýnt svona mikinn hagnað.  Ég þekki þetta, hef fylgst með samkeppninni á fjarskiptamarkaðnum lengi.  Ástæðan fyrir hagnaðinum er að Samherja er þeir eru búnir að „taka völlinn“, og enginn rekur þá útaf til að leyfa hinum að spila líka.  Þetta er hin raunverulega sjálfstæðisstefna.

Til að þjóðin fái góða þingmenn þurfa kjósendur fyrst og fremst að hugsa um hverjir eru að vinna fyrir þá.  Löglærðir menn og konur eiga ekki í vandræðum með að segja hlutina þannig að þeir hljómi vel ***). En ef þeir vinna fyrir hagsmunaaðila en ekki þjóðina, gera þeir minna en ekkert gagn fyrir okkur á Alþingi.

 

Kveðja,

Reynir Eyvindsson, Akranesi.

 

*) Þetta verð á Reitum (61 milljarður) er af einhverjum ástæðum helmingi lægra en skráð gengi allra eigna Reita sem er 127 milljarðar.
**) http://www.frettatiminn.is/allir-nema-stjornarflokkarnir-vilja-uppbod/
***) Niðurstaða prófkjörsins var að 7 af 8 efstu frambjóðendum Flokksins í Reykjavík eru lögfræðingar.