Lítilla sanda… lítilla sæva…

Jósep Ó Blöndal

– Örfáar athugasemdir við grein Jóhönnu Fjólu Jóhannesdóttur 19. júlí sl.

 

Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir, settur forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, gerir í Skessuhorni þ. 19. júlí sl. athugasemdir við ýmis orð, sem undirritaður lét falla í viðtali, sem birt var þ. 12. júlí í tilefni af sjötugsafmæli hans.

Undirritaður ætlar ekki að standa í ritdeilu við stjórn stofnunarinnar á þessum vettvangi, en vill þó færa í letur nokkur atriði, í von um að lesendur blaðsins verði einhvers vísari. Rétt er að taka fram í upphafi, að kjaramálin eru í höndum lögfræðings Læknafélags Íslands, og verður því ekki um þau fjölyrt hér.

Sameining sex stofnana á Vesturlandi, ásamt Hvammstanga og Hólmavík, varð þ. 1. janúar 2010. Engin stjórnunarstaða var auglýst, heldur var Guðjóni Brjánssyni, þáverandi forstjóra á Akranesi „falið að sjá um sameininguna,“ eins og hann orðaði það sjálfur. Lagt var af stað af hálfu stjórnar með miklum fagurgala og loforðum um „samráð“, „samvinnu“, „tillitssemi“ og „virðingu“ og forstjórinn tók skýrt fram á fundi með starfsfólki Heilsugæslu Stykkishólmshéraðs og St. Franciskusspítala: „Það er ekki meiningin að sópa öllu niður á Akranes,“ svo orðrétt sé eftir haft. Gekk starfsfólk stofnananna í Stykkishólmi að sameiningunni með mjög svo jákvæðu hugarfari, og á það ekki sízt við um undirritaðan.

Forstjórinn skipaði svo aðra stjórnendur, enn án auglýsinga, og leit hópurinn þannig út, og gerir enn. Hafi bætzt við nýir stjórnendur, er þeirra ugglaust að leita í sama bæjarfélagi:

  • Forstjóri: Akranes
  • Hjúkrunarforstjóri: Akranes
  • Lækninga- og rekstrarforstjóri: Akranes
  • Fjármálastjóri: Akranes
  • Yfirmaður innkaupa: Akranes
  • Yfirmaður sjúkraflutninga: Akranes
  • Yfirlæknir sjúkraflutninga: Akranes
  • Yfirmaður tölvumála: Akranes
  • Yfirmaður ritara: Akranes
  • Ritstjóri Sögukerfis: Akranes
  • Ritstjóri heimasíðu: Akranes
  • Stýrihópur um rafræna sjúkraskrá: Allir 3 á Akranesi
  • Verkefnastjóri tækni- og búnaðarmála: Akranes
  • Verkefnastjóri þróunar- og gæðamála: Akranes
  • Áheyrnarfulltrúar í stjórn: Báðir frá Borgarnesi

 

Það er líklega engin þörf á að fara mörgum orðum um þessa skipan.

 Í aðdraganda hinnar svokölluðu sameiningar sat undirritaður í nefnd, sem gerði úttekt á starfsemi sjúkrahúsa innan svæðisins, en sjúkrahús með sérfræðiþjónustu eru reyndar aðeins tvö, SHA og SFS.

Eftir hina formlegu sameiningu, veitti undirritaður því athygli, að meðal þeirra nefnda, sem áfram skyldu vinna úr þeim efniviði, sem safnazt hafði í nefndum fyrir sameiningu, var nefndina um sjúkrahúsin ekki að finna. Fyrirspurn undirritaðs til Guðjóns Brjánssonar varðandi þessa nefnd var svarað í tölvupósti þannig:

„Heill og sæll Jósef og þakka þér fyrir skeytið. Nei, það er aldeilis ekki búið að slá nefndina af, þetta er merk nefnd með þungavigtarfólki innanborðs! Við ákváðum að leggja ekki sérstaka pressu á þetta núna í samrunafasanum, við teljum að þetta sé viðfangsefni sem þurfi að fá ítarlega umfjöllun þegar við höfum fengið fulla yfirsýn yfir nýja stofnun.  Ég hef rætt þetta við Björn núna í dag og sömuleiðis Þóri og hann mun einnig setja sig í samband við þig. Þetta eru mikilvæg mál sem við þurfum að setjast yfir og móta okkur sýn til einhverrar framtíðar og ég held að það sé betra að gefa sér góðan tíma og umfjöllun til þess, það gerist ekkert á augabragði í þessum efnum en umræðan verður þó að eiga sér stað.“

Þessi „umræða“ hefur aldrei farið fram, þrátt fyrir ítrekuð tilmæli og kvartanir fagfólks stofnananna í Stykkishólmi. Allar, ég endurtek ALLAR, ákvarðanir varðandi þær stofnanir hafa verið teknar einhliða af stjórn HVE og ekkert samráð haft við faglega stjórnendur eða annað starfsfólk þeirra. Þá hefur lítið borið á „samvinnu“, „tillitssemi“ og „virðingu“.

Þann 4. nóvember 2010 héldu svo Þórir Bergmundsson og Guðjón Brjánsson fund með starfsfólki í matsal SFS. Þar beindi Þórir þeim tilmælum, ef ekki skipun, til fagfólksins, að sem minnst skyldi leggja inn af sjúklingum á SFS og enga bráðasjúklinga. Gerði Þórir í máli sínu lítið úr starfsemi spítalans og reyndar úr starfi þeirra lækna af Snæfellsnesi, sem sent hafa til hans sjúklinga. „Þetta eru bara einhverjar kennitölur,“ svo orðrétt sé eftir haft. Þórir minntist ekki á þann, sem hér ritar, en kennitala undirritaðs hefur ekki tekið teljandi breytingum gegnum tíðina. Hin faglegu rök voru þau, að „styrkja bæri stöðu sjúkrahússins á Akranesi sem bráðasjúkrahúss, til að það geti verið varasjúkrahús fyrir Reykjavíkursvæðið“. Varasjúkrahús Landspítala/Háskólasjúkrahúss heitir Sjúkrahúsið á Akureyri, og í þau örfáu skipti sem spítalinn á Akranesi hefur tekið við sjúklingum af LSH, hafa það verið langlegusjúklingar, sem beðið hafa á LSH eftir hjúkrunarplássi annars staðar, og er þar spítalinn á Akranesi í raun í sama flokki og SFS, en Stykkishólmur hefur einnig tekið við þess háttar sjúklingum af LSH til að létta álagið á þessu flaggskipi íslenzkrar læknisfræði. Um leið tilkynnti Þórir að aflagðar yrðu vaktir lífeindafræðings, en SFS býr yfir afar góðum tækjakosti á rannsóknarstofu og hefur alla tíð notið frábærs fagfólks á sviði rannsókna og sömuleiðis tveggja sjúkraliða, sem þjálfaðir höfðu verið í töku röntgenmynda.

Framangreindum ákvörðunum var harðlega mótmælt af fagfólki stofnunarinnar og undir þau mótmæli tekið skriflega af öllum heilsugæzlulæknum svæðisins; í Ólafsvík, Grundarfirði, Stykkishólmi og Búðardal, en þeim mótmælum var í engu sinnt í verki.

 

Það hefur engum dulizt, sem til þekkir, að SFS hefur í augum stjórnar HVE verið vandræðagripur, einkum þó Háls- og bakdeild spítalans, en deildin á 25 ára afmæli í haust. Ferill hennar hefur verið afar farsæll. Það staðfesta ekki færri en þrjár rannsóknir og gríðarlegt magn tilvísana heilsugæzlulækna og sérfræðinga alls staðar á þessu landi – og á deildinni unnið mikið brautryðjendastarf í því erfiða verkefni sem háls- og bakvandamál eru. Nýtur deildin mikils álits meðal fagfólks bæði hér á landi og erlendis og hefur hlotið lof í gegnum tíðina, þ.e.a.s. af hálfu allra nema stjórnar HVE!

Svo mikil voru vandræði stjórnarinnar, að ráðuneyti velferðarmála kom á fót samstarfshópi um „endurskoðun starfsemi Heilbrigðisstofnunar Vesturlands í Stykkishólmi“. Sátu í nefndinni tveir fulltrúar ráðuneytis, tveir úr stjórn HVE, tveir frá SFS og tveir frá bæjarstjórn Stykkishólms. Nokkur atriði úr niðurstöðum hópsins, en hann skilaði af sér í júní 2011:

  • „Hægt er að hugsa sér að efla almenna sjúkrahúsþjónustu í Stykkishólmi með því að beina þangað innlögnum af þessu tagi af öllu Snæfellsnesi. Vegna samgangna er ekki raunhæft að gera ráð fyrir Dalamönnum í þessu líkani. Upptökusvæði yrði þá með um 4.000 íbúa sem þyrftu samkvæmt landsviðmiði sex almenn sjúkrarými“
  • „Til langs tíma litið væri hyggilegt að nýta reynslu og þekkingu fagteymisins til að efla þekkingu og þjálfun heilbrigðisstarfsfólks á landsvísu. Öflugast væri að gera deildina að landsmiðstöð, eins konar „National Spine Institute“, sem hefði það hlutverk í samvinnu við sérfræðinga Landspítalans, aðrar heilbrigðisstofnanir, háskóla og vísindasamfélagið að koma á verkferlum á sviði greiningar og meðferðar háls- og bakvandamála og standa fyrir rannsóknum. Slík stofnun myndi sinna ráðgjöf til handa fagfólki og skipuleggja menntun og þjálfun, en stofnunin kennir nú þegar nemum í sjúkraþjálfun og læknisfræði.“
  • „Almenn sjúkrahúsþjónusta verði efld í Stykkishólmi með því að beina þangað innlögnum af öllu Snæfellsnesi í þeim tilfellum sem við á samkvæmt læknisfræðilegu mati. Áætlað er að til að þjónusta þetta svæði þurfi sex almenn sjúkrarými. Til að manna þessa þjónustu þarf meðal annars lækni í sem svarar 60% starfshlutfalli eða fleiri en einn sem skipta með sér þessu starfi á móti starfi við heilsugæslu á svæðinu.“
  • „Rekstrargrundvöllur háls- og bakdeildar SFS verði endurskoðaður með eflingu starfseminnar að markmiði. Starfsemi deildarinnar verði að hluta til fjármögnuð með sérstökum lið á fjárlögum þar sem starfsemi hennar nær yfir allt landið og er ekki fyrir hendi á öðrum stofnunum. Athuga þarf vandlega sértekjumöguleika deildarinnar en þeir eru líklega umtalsverðir, til dæmis með samstarfi við VIRK eða hliðstæðar stofnanir, með samningum um greiningu og meðhöndlun erlendra sjúklinga (en fyrir því er viss reynsla), með þjónustu við fyrirtæki og stofnanir og við stofnanir ferðaþjónustu á svæðinu.“

 

Ekkert, ekki eitt einasta, af þessum atriðum hefur verið tekið til skoðunar, hvað þá framkvæmda, af hálfu stjórnar. Skrifuðu þó Þórir Bergmundsson, framkvæmdastjóri lækninga og rekstrar, og Steinunn Sigurðardóttir, þáv. hjúkrunarforstjóri, bæði undir framangreindar niðurstöður. Jóhönnu Fjólu þykir „dapurlegt að sjá að í lok hennar (greinarinnar/viðtalsins – innskot undirritaðs) að stjórnendum sé ekki treystandi fyrir framtíð HVE í Stykkishólmi“. Depurðin er svo sannarlega gagnkvæm!

Jóhanna Fjóla skrifar: „Háls- og bakdeildin er ekki eina deildin í HVE þar sem óánægju gætir með að ekki hefur fengist aukið fjármagn í reksturinn…“ Deildin er hins vegar sú eina innan HVE, sem þjónar öllu landinu og sú eina, sem er með á áttunda hundrað manns á biðlista. Þegar fagfólkið hefur ítrekað bent Guðjóni, Jóhönnu Fjólu og Þóri á þessa staðreynd, hve gríðarlegur kostnaður fylgir því að láta verkjasjúklinga bíða lengi og hve neikvæð áhrif biðin hefur á batahorfur, svo ekki sé minnst á þá þjáningu, sem viðkomandi sjúklingar mega búa við í þessari löngu bið, þá rýna þau í atriði 4) hér að ofan um rekstrargrundvöll deildarinnar og nota þá setningu sem afsökun til að ræða málið ekki frekar. Það mál er löngu útrætt af hálfu ráðuneytis heilbrigðismála, og auk þess hefur aldrei tekizt að fá upplýsingar frá stjórn HVE um kostnaðinn við rekstur deildarinnar, þrátt fyrir ítrekuð tilmæli yfirsjúkraþjálfara deildarinnar, Hrefnu Frímannsdóttur.

Hér er aðeins farið yfir örfá atriði, en dapurlegir stjórnunarhættir stjórnar HVE væru efni í heila bók, og eru jafnvel efni í stjórnsýslu- og eineltiskæru. Í ljósi þessa þarf engan að undra, þótt fagfólk SFS og Heilsugæslu Stykkishólmshéraðs beri ekkert traust til stjórnar Heilbrigðisstofnunar Vesturlands.

Það á enginn að þurfa að skrifa grein sem þessa, en því miður verður ekki orða bundizt, þegar komið er af illvilja og óbilgirni fram við hörkuduglegt, vel menntað og metnaðarfullt fagfólk og annað starfsfólk stofnunar, sem leggur sig fram um að hækka stöðugt gæðastaðal starfseminnar í þágu sjúklinganna eingöngu en ekki úreltrar, ófaglegrar byggðastefnu.

 

Jósep Ó. Blöndal

Höf. er fráfarandi yfirlæknir sjúkrasviðs Heilbrigðisstofnunar Vesturlands í Stykkishólmi.