Lítil eru geð guma

Jósep Ó Blöndal

Framtíð Háls- og bakdeildar St.Franciskusspítala í Stykkishólmi

 

Háls- og bakdeild Franciskusspítala var stofnuð í september 1992 og fagnar því 25 ára afmæli eftir örfáar vikur. Deildin nýtur mikils álits meðal fagfólks og almennings, góður árangur af aðferðum hennar hefur verið staðfestur í þremur vísindarannsóknum og orðspor hennar hefur einnig borizt út fyrir landsteinana. Deildin hefur í um tuttugu ár þjónað öllu landinu.

Hryggjarstykkið í greiningu og meðferð sjúklinganna er sjúkraþjálfunin og sú teymisvinna sem liggur til grundvallar því tveggja vikna prógrammi, sem skjólstæðingar deildarinnar ganga í gegnum. Breiddin í sjúkraþjálfun er gríðarlega mikil og sérhæfing hinna einstöku sjúkraþjálfara afar fjölbreytt, enda höfum við verið mjög dugleg að sækja ráðstefnur, námskeið, þjálfun og þekkingu, bæði hér og erlendis. Þá höfum við notið góðs af samvinnu við erlenda fagaðila, sem og aðra þá á okkar landi, sem fást við verkjavandamál. Sá sjúkraþjálfari sem á sér stystan feril á deildinni, hefur starfað í átta ár, en sú sem á lengstan feril að baki, 27 ár, en fimm þjálfarar starfa við deildina sem stendur. Á engan er hallað, þótt ég fullyrði, að á þessari deild sé landsliðið í greiningu og íhaldssamri meðferð bak- og hálsvandamála. Teymisvinna getur verið krefjandi, en það segir sína sögu, að á 25 árum hefur aldrei fallið styggðaryrði í daglegu samstarfi teymisfélaga og samvinnan verið einstök. Lykillinn að þessu er tvennt: Fagmennska og heilindi.

 

Mafíutaktar?

Í Hollywoodmyndum þar sem Mafían kemur við sögu, heyrist oft setningin: „We‘re gonna make him an offer he cannot refuse“. Í tilviki stjórnar Heilbrigðisstofnunar Vesturlands var farin þveröfug leið, þegar undirrituðum var gert tilboð um áframhaldandi starf við Franciskusspítala í Stykkishólmi; tilboð sem stjórnin mátti vita, að aldrei yrði tekið. Ég hef áður verið auðmýktur og fagmennsku minni misboðið af stjórninni og læt það ekki yfir mig ganga enn einu sinni. Þessi gjörningur þarf ekki að koma neinum á óvart, sem lesið hefur Skessuhorn þ. 12. júlí, 19. júlí og 26. júlí sl. Og þessi gjörningur er í raun staðfesting á því að allt það sem fram kemur í viðtalinu 12. júlí og grein minni þ. 26. júlí er rétt, enda hefur enginn í stjórninni – og enginn annar – séð ástæðu til að lyfta penna og svara þeirri gagnrýni sem þar kemur fram.

Þótt undirritaður hverfi frá deildinni – og það gerir ég með miklum trega og  söknuði – ber ég engan kvíðboga fyrir framtíð hennar. Lykilfagfólkið er á staðnum og starfsemin heldur áfram af fullum krafti. Sjálfur mun ég verða fagfólkinu innan handar og hjálpa til eins og ég frekast get, sé þess óskað af teyminu. Bið ég Franciskusspítalanum, öllu starfsfólki og sjúklingum allrar blessunar um alla framtíð og vona að takast megi að verja starfsemi þessarar stoltu stofnunar og efla hana eins og hún á skilið.

Hvað stjórnina varðar, þá er það von mín að þau, sem hana skipa, beri gæfu til að temja sér fagleg vinnubrögð og heilindi og láti af þeirri þröngsýni, einstefnu, harðneskju í samskiptum og óbilgirni, sem frá upphafi hafa einkennt stjórnhætti hennar. Það getur ekki verið að markmiðið með sameiningunni hafi verið að gera SHA að spítala, sem einkum þjónar íbúum Reykjavíkursvæðisins, en láta aðrar stofnanir utan Akraness, einkum þá stærstu, gjalda þess.

Guðjóni Brjánssyni óska ég velfarnaðar á hinu háa Alþingi. Fyrir aðkomu hans að stjórn stofnana HVE í Stykkishólmi kann ég honum engar þakkir.

 

Beztu kveðjur,

Jósep Ó. Blöndal læknir