Ja hérna hér!

Ingi Hans Jónsson

Nú hellast yfir okkur fréttir um að stjórnmálamenn ætli að bæta kjör eldri borgara og öryrkja. Félagsmálaráðherra hyggst nú leggja fram frumvarp þegar aðeins nokkrar mínútur eru eftir af starfstíma hennar í embætti. Fjármálaráðherra fer mikinn þessa dagana. Hann ræðst á fjölmiðlamenn og pistlahöfunda og sakar þá um falsanir og að allt sem þeir birti sé þvættingur.

Bjarni sendi eldri borgurum bréf í síðustu kosningabaráttu þar sem hann lofaði að afnema tekjutengingar í bótakerfinu og rjúfa þá fátæktargildru sem stjórnvöld hefðu búið lífeyrisþegum og öryrkjum. Bjarni sagði þar að þetta væri ákaflega ósanngjarnt og vinnuletjandi. Þetta fyrirkomulag væri algjörlega í mótsögn við þá stefnu að eldra fólk væri hvatt til þess að lengja vinnualdurinn og auka þannig þjóðartekjurnar. Öllum sem það hafa reynt er ljóst að atvinnutekjur aldraðra og öryrkja eru skattlagðar um 80% þegar tillit er tekið til skerðinga lífeyris. Það sorglega í málinu er að allir vita hvað þarf að gera. Þessi tvö ásamt flokksfélögum sínum hafa haft allt kjörtímabilið til að laga þetta í samræmi við þau loforð sem þau gáfu. Hin dapurlega staðreynd blasir því við að það virðist vera einhver þjóðarsátt um að halda þessum hópum við hungurmörkin og treysta á flokkshollustu þeirra.

Í þessu sambandi er vert að nefna að á endurreisnarárunum eftir hrun var reynt að hlífa þessum hópum og lágmarka þær skerðingar sem þeir urðu fyrir. Ekki tókst það fullkomlega, en allir vissu að að allt var til fjandans farið. Vildarvinir núverandi stjórnarflokka höfðu fengið gefins alla bankastarfsemi og höfðu á örfáum árum rænt þar öllu og ruplað. Innistæður aldraðra af ævisparnaði voru horfnar. Eina fjárfestingin sem var varanleg eftir þessa mestu hneisu þjóðarinnar voru auglýsingaspjöld Framsóknarflokksins og prófkjörsfjárfestingar Sjálfstæðismanna. Er nú hægt að kalla það varanlega fjárfestingu? Mitt svar er já, vegna þess að í krafti stórra kosningasigra hefur verið unnið að breytingum í þágu þeirra efnameiri en hinir skildir eftir. Skattar á láglaunafólk hafa verið hækkaðir en lækkaðir á hátekjufólk og fjármagnseigendur. Það virðist ríkja um það þjóðarsátt að halda áfram að svelta gamalt fólk og öryrkja. Það er nóg að tala um það bara rétt fyrir kosningar og stóla á minnisleysi kjósenda.

Ísland er gott land, bæði ríkt og fagurt. Hér býr fámenn þjóð við gríðarlega auðlegð. Hér geta allir haft það gott ef rétt er gefið.  Við skulum ekki gleyma því að það voru fulltrúar núverandi ríkisstjórnaflokka sem greiddu atkvæði gegn afturvirkni þeirrar litlu hækkunar sem varð á lífeyri. Á meðfylgjandi grafi úr fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2016 má sjá hvernig og hvenær ríkissjóður var endurreistur og hver staðan var þegar núverandi ríkisstjórn tók við. Til að skýra þessa mynd með einföldum hætti, þá sýnir hún að síðustu ríkisstjórnar biðu það örlög að verða hin óvinsælasta en þeirrar núverandi að verða sú vinsælasta. Ef þau hefðu aðeins sett tekjustrikið í lárétta stöðu værum við þar stödd að búið væri að rétta af alla innviði.  Já, alla þá innviði sem skornir voru inn að beini þegar engir peningar voru til. En nei, þeim lá svo á að bæta í sjóði ríka fólksins. Æ, vesalings fólkið, hvers virði er að vera ríkur á Íslandi ef geyma þarf peningana í útlöndum?

Ingi Hans Jónsson,

Grundarfirði