Hugleiðingar gleymds stjórnmálaleiðtoga

Finnbogi Rögnvaldsson

 

Sameinaðir stöndum vér

Sveitarfélög á Íslandi eru enn of mörg og sameining þeirra hefur verið framkvæmd með eins heimskulegum hætti og hugsast getur – hér á sennilega að standa „með ómarkvissum hætti“. Hún hefur tekið áratugi og farið fram í einhverskonar vinsældarkosningum þar sem markmiðið er að íbúar hins sameinaða sveitarfélags græði peninga. Þjónustan á að verða betri og rekstrarkostnaðurinn lægri. En hvað sveitarfélagið á að taka sér fyrir hendur hefur oft verið hálfgert aukaatriði þó einstaka sinnum hafi rekstur stofnunar eða meðferð einhverra eigna verið aðal atriðið.

Alþingi

Spaugilegast af öllu er þó að Alþingi – stofnunin sem setur sveitarfélögum reglur til að vinna eftir – harðneitar að koma að sameiningu sveitarfélaga með öðrum hætti en fjárframlögum sem ætlað er að egna með fyrir kjósendur sem tekist hefur að plata í sameiningarkosningu það og það skiptið. Það er kannski ein leið til að auka veg hins háa Alþingis að skipta út þingmannafrumvörpum um vínbúðir og það hvað klukkan eigi að vera fyrir tillögur um bætta stjórnsýslu í landinu (og auknar refsiheimildir til handa mannanafnanefnd!).

Skólar

Mér datt þetta í hug þegar ég sá vitnað í sveitarstjórn Borgarbyggðar sem var nú að vandræðast með það að dýrara væri að reka mötuneyti í grunnskólum í dreifbýli heldur en í Borgarnesi. Áttaði mig reyndar ekki á því hvort markmiðið væri að gera reksturinn dýrari í Borgarnesi eða ódýrari í sveitunum en einhvern veginn virtist sumum sveitarstjórnarmönnum þetta eiga að kosta það sama. Ég man að þegar ég sat í þessari stöðu – að vera sveitarstjórnarmaður í Borgarbyggð – voru menn sífellt að finna að rekstri mötuneytisins við Grunnskólann í Borgarnesi. Maturinn var ekki nógu góður, verðið var of hátt eða of lágt, börnin þurftu að ganga of langt og Pétur græddi of mikið. Ekki veit ég um ávinning hótelhaldarans (sumir virðast græða bæði við það að draga andann og reka við) en vona að áformaðar byggingarframkvæmdir við skólann verði vel lukkaðar. Hver þróunin verður svo í skólamálum í héraðinu er ekki gott að segja til um en þó er orðið ljóst að áform sveitarstjórnar um breytingar á skipan skólahverfa sem voru að gerjast frá 2008 út árið 2009 byggðu á framtíðarsýn sem ekki hefur gengið eftir. Sennilega er því gott að draga lappirnar og fara sér hægt þegar mönnum sýnist lag að loka skólum.