Gott knattspyrnugras sem stenst hæstu gæðakröfur

Einar Brandsson og Þórður Guðjónsson

Þessa dagana er í uppsetningu nýtt knattspyrnugras sem oft í daglegu tali er kallað gervigras í Akraneshöllinni. Er þetta í framhaldi af því að tilboði frá Metratron ehf að fjárhæð 38 mkr. var tekið. Samráðshópur Akraneskaupstaðar og Knattspyrnufélagi ÍA fékk til liðs við sig reyndan ráðgjafa með þekkingu á gervigrasi til að tryggja sem besta vinnu við útboðið.  Í aðdraganda útboðs voru farnar skoðanarferðir og skoðað hvað önnur sveitarfélög voru að gera en þau völdu öll að taka gervigras með innfylliefnum á keppnisvelli sína.  Jafnframt voru teknir fundir með seljendum sem höfðu hugmyndir um aðrar lausnir.

Niðurstaða samráðshópsins var að velja innfyllt knattspyrnugras/gervigras sem væri þekkt og hafi reynst vel. Í því felst að knattspyrnugrasið er með í grunninn gúmmímottu undir grasteppinu sjálfu, á grasteppið er síðan lagður sandur og gúmmíkurl. Allt miðar þetta að því að ná sem bestri virkni í grasið m.t.t. knattspyrnuiðkunar. Helstu kröfur í útboði voru m.a:

 

  • Viðurkenndur framleiðandi með samþykki frá FIFA. Sýnt yrði fram á að grasið stæðist FIFA Quality pro field test.
  • Notaður yrði staðlaður silicalsandur.
  • Í ljósi umræðu um hugsanleg heilsuspillandi áhrif endurunnins gúmmíkurls (dekkjafgangar) yrði notað hreint gúmmíkurl ofan á grasmottuna þ.e. Virgin EPDM, ljós grænt jafnvel þótt um umtalsverðan verðmun væri að ræða.
  • Settar voru kröfur um útfærslu og stærðir er tóku á þykkt stráa, þéttleika þeirra, þyngd grasmottu, þyngd sandfyllingar og gúmmífyllingar o.s.frv.

 

Er það trú undirritaðra eftir að hafa kynnt sér útboð Akraneskaupstaðar að þar hafi verið staðið faglega að verki og samstarf við Knattspyrnufélag ÍA hafi jafnframt verið gott.  Knattspyrnugras sem valið var standist hæstu gæðakröfur FIFA og KSÍ sem sómi er af fyrir knattspyrnuiðkendur. Jafnframt er það okkar trú að grasið sem valið var sé öruggt, umhverfisvænt, fagurt útlítandi, heilsusamlegt, vel lyktandi, án mengunar og hagkvæmt í rekstri öfugt við fullyrðingaflaum Sveinbjörns Freys Arnaldssonar í aðsendri grein í Skessuhorni.  Ef bjóðendur annarra lausna telja sig hafa betri lausnir þá er þeim í lófa lagið að tryggja sér tilskilin gæðapróf líkt og FIFA Quality pro field test og þannig ná inn hjá KSÍ.  Mikilvægt er að engin áhætta var tekin á Akranesi með gæðakröfur á knattspyrnugrasi.  Því var viturlegt hjá samráðshópi og ráðgjafa að gera ekki börn, unglinga og afreksmenn í knattspyrnu að tilraunadýrum með mögulegri meiðsla- og slysaáhættu.

 

Með góðum knattspyrnukveðjum,

Einar Brandsson, formaður Skipulags- og umhverfisráðs.

Þórður Guðjónsson, formaður Skóla- og frístundaráðs.