Gleymdist fjöreggið?

Stefán Skafti Steinólfsson

Ágætu lesendur! Athygli mína vakti að í nýliðnum kosningum var ekkert rætt um fjöregg þjóðarinnar; fiskveiðar. Eini flokkurinn sem boðaði frjálsar handfæraveiðar og breytingar á fiskveiðistjórninni fékk ekki brautargengi að þessu sinni. Ekki tjóir að gefast upp heldur berjast. Það er sláandi að þegar allir vöktu máls á því að byggja þyrfti upp innviði þá leit enginn til þess hvernig þjóðfélagið var byggt upp. Hvernig við vorum dregin út úr moldarkofunum með fiskveiðum sem lögðu grunninn að velferð þegnanna og sjálfstæði þjóðarinnar. Frelsi einstaklingsins var lykillinn að baráttunni fyrir að geta séð sér og sínum farborða. Áratugum saman veiddum við á bilinu 380-500 þúsund tonn úr fiskveiðilögsögunni.  Með tilkomu kvótakerfisins á níunda áratugnum seig á ógæfuhliðina. Hafró týndi 345.000 tonnum af þorski og sett var á skortveiðikerfi þar sem allri gagnrýni á aðferðir og útfærslu kerfisins var stungið undir stól með dyggri aðstoð Alþingis – og ekki síst landsbyggðarþingmanna. Það er smjörklípa að segja að meðferð afla hefði ekki batnað og virðisauki aflans aukist jafnt og þétt um landið, en ekki safnast á fáar hendur líkt og orðið er.

Forysta Íslands á fiskmörkuðum og orðspor var byggt upp fyrir kvótakerfi. Okkar markaðir hafa margir tapast í skortveiðistefnunni og nú er norskur fiskur í forystusætinu. Við skulum ekki gleyma því þó margir haldi að hjólið hafi verið fundið upp með kvótanum, að margvíslegur iðnaður varð til fyrir daga kvótakerfisins. Fyrirtæki eins og Marel og Hampiðjan urðu til fyrir daga kvótakerfisins. Og vel á minnst það unnu rúmlega 200 manns hjá Skipasmíðastöð Þ&E á Akranesi.  Hví hafa ekki fleiri sprotafyrirtæki sprottið upp á Vesturlandi eða Vestfjörðum fyrst að kerfið er svona gott? Svarið er að þetta er landeyðingarstefna sem er að gera út af við sjávarplássin. Sjómenn eru kúgaðir í samningum og sitja við afarkosti að kaupa hluti í atvinnutækjunum og olíuna á þau líka. Þrátt fyrir ofsagróða margra útgerða. Steininn tók úr þegar framkvæmdastjóri SFS (LÍÚ) hótaði að fara með fiskinn úr landi til vinnslu.

Í lögum um stjórn fiskveiða stendur: „1. gr. Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Þarna hefur okkur hrapalega mistekist, svo vitnað sé í Einar Odd þann ágæta Sjálfstæðismann. Það er furðulegt í dag að flokkar sem kenna sig við frjálslyndi skuli verja þessi mannana verk.  Jafnvel Sovétstjórnin eða ítalska mafían hefði ekki reynt þetta. Byggð og atvinna er víða í rúst. Sem betur fer er ekki búið að breyta 1. grein laga um fiskveiðar þó margar atlögur hafi verið gerðar að henni. Þöggun og meðvirkni með kvótakerfinu er yfirgengileg.

Á Akranesi er sviðin jörð eftir kvótakerfið, örfáir bátar eftir með kvóta, margir að selja eða búnir að selja kvótann og engin endurnýjun á sér stað. Fiskmarkaðurinn lokaður (vonandi stutt), lítið sem ekkert af fiski berst að landi.  Störf, fiskimið, menning og sá blær sem einkennir sjávarþorp er að deyja út. Og enn fækkar kvennastörfum á Akranesi.  Viljum við það? Viljum við sækja alla vinnu suður í Reykjavík eða inn á Grundartanga? Það er breytt bæjarmynd.  Nei, við þurfum fleiri fyrirtæki innanbæjar og fjölbreytta flóru lítilla fyrirtækja.

Ætla þingmenn Norðvesturkjördæmis og bæjarfulltrúar Akraness að láta þetta viðgangast átölulaust? Hver er stefna nýrra þingmanna og flokka þeirra?  Hvernig sjá fulltrúar okkar á Alþingi fyrir sér að nýliðun eigi sér stað í fiskveiðum? Það er til lausn og hún er sú að skifta um fiskveiðistjórnunarkerfi. Ekki þarf að taka neitt af neinum og vel hægt að leggja af veiðigjöld. Galdurinn er að veiða meira úr þeirri auðlind sem við erum að sóa við fætur okkar. Ég óska eftir því að fleiri láti í sér heyra og þingmenn sendi okkur línu. Já, það er tilbreyting að fá að heyra í þeim eftir kosningar þó lúnir séu. Það styttist jú í bæjar- og sveitarstjórnarkosningar.

Lesandi góður. Það er hægt að breyta mannanna verkum. Veitum aðhald og veiðum fisk. Nú þarf að byggja upp þjóðfélagið á öllum sviðum.

 

Stefán Skafti Steinólfsson, Akranesi.