Fögnum íbúakosningum

Stefán Ingi Ólafsson

Ég er fylgjandi íbúakosningum og auknu íbúalýðræði.  En kosningar þurfa að vera um einhverja valkosti en ekki bara með eða á móti, því yfirleitt er hægt að ná upp múgæsingu með því að vera á móti einhverju.

Það væri vel hægt að kjósa t.d. um lóðirnar að Borgarbraut 57 – 59 og væri sennilega ekki erfitt að ná fram kosningu um að hætta þessari framkvæmd. En ef valkosturinn er að halda þessari framkvæmd áfram og fá tekjur af fasteignagjöldum og lóðargjöldum og geta með þeim tekjum haldið áfram löngu tímabærrar stækkunar grunnskólans í Borgarnesi eða hætta þessari framkvæmd að Borgarbraut 57-59 og á sama tíma að hætta við byggingu mötuneytis við grunnskólann, þá er ég ekki viss um sömu niðurstöðu kosninganna. Nú eða skólamál á Hvanneyri. Væri ekki tilvalið að kjósa um það deilumál og er sennilega auðvelt að fá niðurstöðu ef valkosturinn er bara með eða á móti.

Það eru mörg málefni í sveitarfélaginu sem eru mikilvægari og betur til þess fallin að kjósa um en málefni Skotvest. En ef það verður kosið um það mál þá þarf að kjósa um valkosti, staðsetningu A með tilheyrandi kostum og göllum eða þá staðsetningu B.  En eitt er víst að ekki er hægt að taka bara eitt íþróttafélag út og kjósa um líf þess eða dauða.  Það verður þá sama að ganga yfir önnur íþróttafélög og við verðum að kjósa um málefni þeirra. Ætli það sé meirihluti fyrir því í sveitarfélaginu að Borgarbyggð eigi reiðhöll með tilheyrandi kostnaði? Nú eða hvort réttlátt sé að Hestamannafélagið Skuggi sé með vel á annað þúsund hektara af landi frá sveitarfélaginu en Skotvest getur ekki fengið 25 hektara undir sína starfsemi og er þó ekki stór munur á stærð félaganna. Nú eða styrki til félaganna? Ýmis félög fá rekstar- og starfsstyrki frá sveitarfélaginu, eigum við að kjósa um þá?

Það er ekki víst að niðurstaðan yrði alltaf jákvæð, því það er býsna auðvelt að vera á móti þegar málefnið varðar þig ekki persónulega.

En ég sem er nú eiginlega alltaf á móti öllu, er ekki á móti félagasamtökum í Borgarbyggð, því ég held að þessi öfluga félagsstarfsemi sem rekin er í sveitarfélaginu sé ástæðan fyrir því, ásamt átthagafjötrum, að fólk vill búa í þessu sveitarfélagi. Ekki er það hæsta útsvarið nú eða hæstu mögulegu fasteignagjöld sem löglegt er að greiða á landinu, eða háu leikskólagjöldin, brotnu gangstéttirnar eða fjallskilamál. Þannig forðum okkur frá því að fara sporna gegn uppbyggingu félaga í sveitarfélaginu.

Ég held í það minnsta áður en kosið verður um einhver mál, að það verði að móta stefnu um hvaða mál sé hægt að kjósa um og hvaða forsendur þurfi til. Er nóg að það sé ákveðinn fjöldi mótmæla, er nóg að ákveðin þjóðfélagshópur sé á móti? Eða er einfaldlega nóg að sveitarstjórnarmenn þori ekki að taka ákvörðun?

 

Stefán Ingi Ólafsson

Höf. er enn íbúi í Borgarbyggð og fulltrúi í stjórn Skotvest.