Eru börn í framhaldsskólum?

Heiðrún Janusardóttir og Jónína Halla Víglundsdóttir

Náum áttum er fræðslu- og forvarnahópur sem skipuleggur morgunverðarfundi um ýmis mál er varða forvarnir og velferð barna og ungmenna. Undirritaðar sátu einn slíkan þar sem yfirskriftin var „Eru börn í framhaldsskólum? Ábyrgð skóla og foreldra á velferð barna.“

Það verður víst aldrei of oft kveðið að foreldrar eru mikivægastir þegar kemur að öllum þáttum velferðar barna. Samstarf foreldra sín á milli er einnig afar mikilvægur þáttur. Páll Ólafsson sviðsstjóri hjá Barnaverndarstofu fjallaði  um samskipti unglinga og foreldra þeirra en yfirskrift fyrirlesturs hans var  Ábyrgð foreldra. Hann útskýrði hvers vegna það væri mikilvægt að foreldrar tækju ábyrgð sína á foreldrahlutverkinu alvarlega. Það væri til þess að börn læri: Samkennd, að setja mörk, að njóta samveru, að þróa góða sjálfsmynd og góð viðhorf. Páll nefndi að þó að þekking og góð menntun séu jákvæðir þættir sem geta leitt til betra lífs, þá séu það ekki endilega þeir sem skora hæst á gáfnaprófi sem vegnar best í einka- og atvinnulífinu. Þar skori hærra eiginleikar til að nema og skilja tilfinningar hjá sjálfum sér og öðrum, hafa stjórn á tilfinningum og búa til og viðhalda góðum samskiptum. Allir þurfa að upplifa það að þeir séu mikilvægir, að einhverjum þyki vænt um þá og það skipti máli hvernig þeim líður. Mikilvægt er að foreldrar leggi rækt við og séu í góðu samband við börn sín því það samband virkar sem fyrirmynd fyrir seinni tíma sambönd. Öruggt umhverfi fyrir börn er grunnur til að öðlast trú á sjálfan sig og hæfileika sína.

 

Að vera leiðandi foreldri

Páll  tók sérstaklega fram að börn eru einstaklingar frá núll og upp í 18 ára. Mikilvægt er fyrir foreldra að axla ábyrgð á börnum sínum upp að 18 ára aldri þó hlutverk foreldranna geti breyst. Hann benti á mikilvægi þess að foreldrar væru leiðandi í sínu hlutverki. Leiðandi foreldrar krefjast þroskaðrar hegðunar af börnum sínum. Þeir setja skýr mörk,rökstudd og útskýrð svo unglingurinn skilji hvað er að gerast. Leiðandi foreldar aðlaga sig að auknum þörfum unglinga fyrir frelsi og ábyrgð. Þeir hvetja þá  til að skýra út sjónarmið sín og leggja áherslu á að ræða saman þar sem fram koma bæði sjónarmið barna og foreldra, til dæmis þegar reglur eru settar. Leiðandi foreldri styður og gagnrýnir en gefur unglingnum sjálfum tækifæri til að velja leiðir. Þessi leið gefur unglingum trú á að þau geti haft áhrif á umhverfi sitt, veitir þeim meiri ábyrgð, gerir þá sjálfstæðari og félagslega virkari.

Páll gerði einnig að umtalsefni aðkomu foreldra að framhaldskólunum. Hann benti á mikilvægi góðrar samvinnu heimilis og skóla. Áhugi, viðhorf og væntingar foreldra hafa mikil áhrif að velgengni framhaldsskólanema og því ætti góð samvinna að vera  kappsmál allra. Aukin samvinna byggir brú á milli þessara tveggja heima, heimilis og skóla. Lög og reglur sem gilda um skóla, ásamt rannsóknum leggja áherslu á að samvinna ríki á milli foreldra og skóla. Hins vegar er sjaldan talað um það hvernig við komum upp þessari samvinnu og á hvað á að einblína. Við þurfum að fá fleiri hugmyndir um það, hvað hægt er að gera.

Umfram allt telur Páll að til að styða þurfi vel við barnið til að það geti þroskað með sér góða andlega heilsu og þar með náð betri árangri í námi. Þó svo að margt gott sé gert í framhaldskólum þarf að styrkja sambandið við foreldra. Það er hægt að gera með ýmsum hætti svo sem persónulegum viðtalstímum í gegnum t.d námsráðgjafa og  umsjónarkennara. Fyrirlestar, foreldrafundir og prentaðar upplýsingar eru einnig allt góðar leiðir. Einn fyrirlestur í byrjun námsvistar er hins vegar ekki nóg. ,,Það verður meira eins og stjörnuljós sem er mjög fallegt í stutta stund, lýsir upp en deyr hratt. Það viljum við ekki. Við viljum að samskipti skóla og foreldra verði eins og norðurljósin, endalaust falleg og alltaf til.“

 

Heiðrún Janusardóttir, verkefnisstjóri æskulýðs- og forvarnarmála hjá Akraneskaupstað

Jónína Halla Víglundsdóttir, áfangastjóri í FVA.