Enn um vegabætur – Breikkun, göng og brýr

Stefán Skafti Steinólfsson

Um þessar mundir þegar land tekur að rísa og skuldir minnka eftir fjármálafárviðrið er því haldið mjög á lofti að gera áætlanir. Nú mun vera unnið eftir fimm ára fjármálaáætlun sem er jákvætt.  Nú vil ég með greinarkorni þessu hvetja hæstvirtan samgönguráðherra að draga vegagerð á Íslandi úr þeim vítahring sem hún er í.  Það er ekki boðlegt árið 2017 með öllum þeim álögum á bíleigendur og flutningafyrirtæki að bjóða upp á þessa vegi sem eru tifandi tímasprengjur.

Ekki má svo skilja að hjá Vegagerð ríkisins sitji menn og nagi blýanta, síður en svo. Hjá Vegagerðinni vinnur gott fólk, en fjárveitingavaldið og stjórnendur Vegagerðar verða að komast út úr moldarkofahugsuninni. Vinda sér í byltingarkennda samgönguáætlun.

Gera þarf vandaða áætlun um jarðgangagerð og breikkun vega til þess að komast á þessa öld í vegagerð og eyða einbreiðum brúm. Þessi verkefni ættu að vera í algjörum forgangi ásamt listanum yfir hættulega vegi sem hafa verið vel skrásettir af Euro-Rap.

Ekki er forsvaranlegt að bjóða vegfarendum að aka vegi eins og t.d. má finna í Dölum vestur. Ég nefni kaflana frá Breiðabólsstað í Sökkólfsdal til Búðardals annars vegar og hinsvegar frá Bersatungu í Saurbæ að Skriðulandi. Mjög hættulegir vegakaflar og þar hafa orðið mjög alvarleg slys og ekki spurningin hvort heldur hvenær fleiri banaslys verða á þessum vegaköflum. Ekki er það síst í ljósi stóraukinna flutninga og umferðar ferðamanna.  Ég skora á flutningafyrirtækin að mynda bíla sína hlið við hlið á þessum vegaköflum og sýna hversu hættulegir þeir eru. Raunar er það mannréttindabrot að rukka fullt gjald af svona vegleysum. Þannig kaflar eru reyndar víða um land en ég nefni þessa þar sem undirritaður þekkir til og hefur ekið á vörubifreið með lífið í lúkunum.

Það þarf ekki að fjölyrða um yfirburði jarðganga. Hvarvetna eru þau besti kostur með tilliti til heildaröryggis og rekstrarkostnaðar. Ég tel að ávinningur af jarðgöngum hafi verið alltof varlega áætlaður á kostnað vegagerðar, því víða liggja hagsmunir í vegagerð. Það munu sjálfsagt til þverhandarþykkar skýrslur um þessi mál sem ég læt öðrum eftir.  Auðvitað á nú að bjóða út þessi 20-25 göng sem á eftir að bora hér (já ég er líka að tala um Klettsháls og Bröttubrekku) um landið. Nú er lag að fá góð tilboð.

Vegagerðin ætti að taka annað ríkisfyrirtæki til fyrirmyndar sem tók lán hjá norræna fjárfestingbankanum til að koma öllum sínum línum í jörðu. Þarna er góð áætlun á ferð og til fyrirmyndar. Það væri lengi hægt að reikna þessa hagræðingu af jarðgangagerð samfara björgun byggðar um landið. Samtök sveitarfélaga ættu að leggja mun meiri áherslu á að jafna búsetuskilyrðin með mannsæmandi vegum með þokkalegu slitlagi og jarðgöngum þar sem við á, áður en menn leggja í þann lúxus sem t.d. Sundabraut er. Við erum jú sama þjóðin í þessu landi.

Einbreiðar brýr eru þjóðinni til skammar. Setja ætti af stað áætlun um eyðingu þeirra. Það er fádæma getuleysi með nútíma afkastamiklum tækjum að enn skuli finnast dauðagildrur um allt land. Brýr sem jafnvel er hægt að breikka á einni nóttu með stórvirkum vinnuvélum.  Með stærri vatnföll má nefna þann undrastutta tíma sem tók að brúa Múlakvísl eftir hamfarahlaup. Það er vel hægt að taka helmingi lengri tíma og setja tvíbreiða brú til bráðabirgða þar til ný tvíbreið hefur verið kláruð. Skerum nú upp herör gegn þessum dauðagildrum.

Nú kunna einhverjir að gera athugasemdir hvar eigi að fá aura fyrir þessu öllu saman. Lausnin er við fætur okkar. Með því að veiða u.þ.b. 250 þúsund tonnum meira af þorski, líkt og við gerðum áratugum saman (450 þús tonn samtals) áður en skortveiðistefna hins hræðilega kvótakerfis dró úr okkur máttinn. Þá eigum við fyrir þessum vegabótum og vel það. Það er fádæma aumingjaskapur að draga ekki björg í bú til að bæta kjörin. Því væri lag fyrir hæstvirtan samgönguráðherra að gera nú alvöru samgönguáætlun með hæstvirtum sjávarútvegsráðherra.  Orð eru til alls fyrst.

 

Virðingarfyllst,

Stefán Skafti Steinólfsson Akranesi.