Bæta þarf sorpmálin í hreppnum

Þórður Ingólfsson

Undanfarin ár hef ég ásamt systkinum mínum staðið í að hreinsa burt alls kyns drasl af ættaróðalinu okkar Straumfjarðartungu í Eyja- og Miklaholtshreppi.

Opnir gámar hafa af og til verið staðsettir í malargryfjunni við vestanvert Langholt, skammt frá þar sem gömul og góð fyrrverandi Vegagerðarskemma stendur. Í einhverjum tilfellum höfum við getað nýtt okkur þá gáma en oftar en ekki ekið með draslið í kerru í Borgarnes.

Einnig hef ég mörg undanfarin ár þurft að aka með heimilissorpið langa leið og ýmist losað það í ruslagám við Urriðaá eða hent því í gám við Olís í Borgarnesi, þar sem ég stoppa gjarnan á ferðum mínum.

Nú um síðustu helgi kíkti ég í malargryfjuna umræddu og var ástandið þá eins og sést á meðfylgjandi mynd.

Er það svona sem íbúar og sveitarstjórn míns gamla sveitahrepps vilja hafa hlutina?

Svari því hver sem vill.

Kveðja,

Þórður Ingólfsson