Ákall sauðfjárbænda

Bjarni Jónsson

Afurðastöðvar og sláturleyfishafar tilkynntu skyndilega um mikla værðlækkun á kjöti til sauðfjárbænda í haust. Þannig hefur Norðlenska lækkað verðskrá á dilkakjöti um 10% til bænda frá því í fyrra og heil 38% lækkun á kjöti af fullorðnu fé. Ástæður lækkunar eru sagðar launahækkanir, slæmar horfur á útflutningsmörkuðum, styrking á gengi krónunnar og háir vextir. Meðan laun og kaupmáttur hefur hækkað um jafnvel tugi prósenta á síðasta  ári skýtur það skökku við að þessum hækkunum sé öllum varpað yfir á  sauðfjárbændur. Og þeir taki á sig stórfellda lækkun afurða sem kemur beint fram sem kjararýrnun þeirra.  Eru margir sauðfjárbændur mjög áhyggjufullir og sjá mikla erfiðleika  í sauðfjárbúskap ef þessi mikla verðlækkun nær fram að ganga óbætt.

Formannfundur Landssamtaka sauðfjárbænda sendi frá sér áskorun  nýverið á sláturleyfishafa  um að:

Stjórnir og stjórnendur afurðastöðva dragi þær tafarlaust til baka áður en óafturkræf áhrif koma fram í íslenskri sauðfjárrækt og sveitum landsins. Fundurinn skilur erfiðar aðstæður sláturleyfishafa sem þurfa að kljást við fákeppni á smásölumarkaði, launaskrið og kostnaðarhækkanir. Fundurinn hafnar hins vegar ásetningi fyrirtækjanna að velta fortíðarvanda, kostnaðar- og launahækkunum eingöngu yfir á bændur.“

Finna þarf leiðir til að fleyta sauðfjárræktinni yfir þessa erfiðleika sem nú eru.  Sauðfjárræktin er undirstaða búsetu og nýtingu náttúrulegra auðlinda landsins. Hollusta og gæði dilkakjöts eru einkennistákn innlendrar matvælaframleiðslu. Þess vegna verða stjórnvöld afurðastöðvar samtök bænda og heildsölu og smásöludreifingar að koma hér sameigninlega að til að tryggja grunn sauðfjárbúskapar í landinu, matvælaframleiðslunnar  og afkomu bænda sérstaklega í hinum dreifðari byggðum sem eiga nánast allt sitt hér undir. Þetta er ekki einkavandamál og viðfangsefni einstakra sauðfjárbænda heldur þjóðarinnar allrar. Viðar Guðmundsson bóndi í Miðhúsum í Strandabyggð hefur þungar áhyggjur í pistli sínum á fésbók, en hvetur menn jafnframt til dáða:

„Það er búið að heyja og leggja í ýmsan annan kostnað fyrir komandi vetur þannig að við verðum allavega með sauðfé í vetur en ef ekki verður bakkað með þetta verð þá er í raun sjálfhætt. Og svo horfir maður á fréttatíma eftir fréttatíma hvað allt er í svakalegri uppsveiflu hér á landi. Nú er ekkert annað í stöðunni fyrir fjárbændur en snúa bökum saman og berjast fyrir okkar kjörum og það af hörku. Við höfum engu að tapa.“

 

Nýleg könnun sem birtist í Bændablaðinu sýnir að 82,3% kjósenda vilja heldur innlent kjöt en erlent. Sauðfjárræktin er undirstaða byggðar og búsetu í hinum dreifðu byggðum og lambakjötið einkennistákn hollrar og góðar matvælaframleiðslu, Hér þarf að bregðast skjótt við.

 

Bjarni Jónsson

Höfundur býður sig fram í forvali til að leiða lista VG í Norðvesturkjördæmi.