Air Iceland Connect og íslensk tunga

Tryggvi Gíslason

Í grein í Skessuhorni eftir Kjartan S. Þorsteinsson 31. maí s.l. segir:

„Líkt og sumir afrískir ættbálkar var íslenskan að mestu einangruð frá áhrifum annarra menningarstrauma og tungumála í þúsund ár. Það gerði að verkum að hún breyttist miklu hægar en skyldar tungur í kringum okkur. Hún er því mikið sögulegt og menningarlegt verðmæti, ekki bara fyrir okkur Íslendinga heldur líka fyrir aðrar þjóðir sem gætu haft áhuga á að kynna sér hana. Hún er því alls engin ástæða til minnimáttarkenndar. Þvert á móti getum við verið mjög stolt af þessari flottu arfleifð.”

 

Nýyrði

Taka má undir flest í þessum orðum Kjartans S. Þorsteinssonar – nema að íslenska hafi „að mestu verið einangruð frá áhrifum annarra menningarstrauma og tungumála í þúsund ár”. Þetta er nokkur misskilningur. Á miðöldum varð íslenska fyrir miklum áhrifum frá tungumálum eins og latínu, fornensku og þýsku, bæði vegna kristnitökunnar og vegna þýðinga af ýmsu tagi. Fjölmörg orð eru komin í íslensku úr þessum tveimur tungumálum, enda var Ísland ekki einangrað land.

Dæmi um nýyrði sem koma inn í málið með þýðingum eru orð úr fornensku eins og bjalla, guðspjall, hringja, kirkja, sál, sálmur og sunnudagur. Mörg orð í íslensku kirkjumáli eru einnig komin úr fornsaxnesku eða miðlágþýsku, því að samskipti voru mikil við Þýskaland á tímum kristniboðs á Norðurlöndum.  Má nefna altari, djöfull, kór, krans, paradís, prestur, synd, trú og vers.  Mörg orð í íslensku kirkjumáli á miðöldum eru svo að sjálfsögðu komin beint úr latínu s.s. altari, annáll, bréf, djöfull, doktor, fígúra, glósa, grallari, klausa, krans, paradís, letur, meistari, persóna, punktur, rím sakramenti, synd og vers.

Eftir siðaskipti og fram eftir 19. öld – á danska tímanum sem svo er nefndur – voru áhrif frá danska kansellístílnum mikil, bæði hvað varða orð og stíl. Fræg er auglýsing Stefáns Gunnlaugssonar bæjarfógeta í Reykjavík í upphafi árs 1848 svohljóðandi: „Íslensk tunga á best við í íslenskum kaupstað, hvað allir athugi.” Bæjarfógeti fyrirskipaði einnig næturverðinum í Reykjavík að hrópa á íslensku í stað dönsku áður.

Síðast en ekki síst má nefna áhrif frá ensku eftir hernám Breta og Bandaríkjamanna í upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar þegar tekin voru upp orð eins og gæi, jeppi, sjeik, sjitt, og sjoppa og sagnirnar bögga, fríka út og dissa. Þá má nefna að breytingar á beygingakerfi og hljóðkerfi málsins hafa orðið verulegar í tímans rás svo að Borgfirðingarnir Egill og Snorri mundu ekki skilja okkur Kjartan S. Þorsteinsson ef við hittum þá á förnum vegi.

 

Móðursýki

Eftir að Flugfélag Íslands tók upp nafnið Air Iceland Connect greip um sig nokkur móðursýki. Öllum má hins vegar vera ljóst að íslensk fyrirtækni taka síaukinn þátt í samkeppni á alþjóðamarkaði – þar sem tungumálið er enska. Ekkert óeðlilegt er því við það að íslensk fyrirtæki á alþjóðamarkaði noti ensk heiti til þess að vekja á sér athygli. Leyfi ég mér að fullyrða að ensk heiti á íslenskum fyrirtækjum ógna ekki framtíð íslenskrar tungu. Þar vega aðrir þættir þyngra svo sem minnkandi bóklestur ungs fólks, tölvuleikir á ensku sem valda því að börn og unglingar tala orðið ensku sín á milli. Þá er afstaða stjórnvalda til menntamála og léleg kjör kennara mun meiri ógn við íslenska tungu en ensk heiti á íslenskum fyrirtækjum.

Oft áður hefur raunar verið efast um gildi íslenskrar tungu og henni spáð dauða. Árið 1754 kom út í Kaupmannahöfn ritið TYRO JURIS edur Barn í Lögum eftir Svein lögmann Sölvason. Þar segir hann, að heppilegra sé að nota orð úr dönsku en íslensku þegar ritað er um lögfræði á íslensku. Bjarni Jónsson, rektor Skálholtsskóla, lagði til í bréfi til Landsnefndarinnar fyrri árið 1771 að íslenska yrði lögð niður og danska tekin upp eða með hans orðum – á dönsku: „Jeg anseer det ikke alene unyttigt men og desuden meget skadeligt, at man skal beholde det islandske Sprog.” Í upphafi velmektardaga frjálshyggju í lok síðustu aldar var lagt til að íslenska yrði lögð niður og enska tekin upp í staðinn.

 

Staða íslenskunnar

Staðreyndin er hins vegar sú, að íslensk tunga hefur aldrei staðið sterkar sem lifandi þjóðtunga en nú. Á þetta m.a. rætur að rekja til þess, að málið hefur verið sveigt að nýjum viðfangsefnum og breyttu menningarumahverfi. Ritun skáldsagna og leikrita, ljóðagerð og vísnasöngur og vönduð bókaútgáfu hefur aldrei verið öflugri en undanfarna áratugi og nýstárlega auglýsingagerð í útvarpi og sjónvarpi hafa auðgað tunguna þar sem orðið hafa til orðaleikir og íslensk fyndni sem áður voru óþekktir í málinu – að ógleymdu rappi á íslensku. Engu að síður eru ýmis viðgangsefni sem bíða úrlausnar svo sem notkun íslensku í stafrænu umhverfi.

Flest bendir því til, að íslenska, þetta forna beygingarmál, geti áfram gegnt hlutverki sínu sem félagslegt tjáningartæki í fjölþættu samfélagi nútímans. Hins vegar hefði ef til vill mátt finna betra enskt nafn á Flugfélag Íslands en Air Iceland Connect.

 

Tryggvi Gíslason