Afnám ríkiseinokunar

Vilhjálmur Egilsson

Afnám einokunar ríkisins á smásöluverslun með áfenga drykki er mikið þarfamál. Núverandi fyrirkomulag er á margan hátt fallið til þess að næra óheilbrigða viðskiptahætti og er alls ekki það tæki til að vinna gegn ofneyslu áfengra drykkja eins og látið er í veðri vaka. Þegar ÁTVR var komið á laggirnar í framhaldi af afnámi vínbannsins var það ríkjandi skoðun að bæði varan og neytendurnir væru vandamál og að ástæða væri til þess að takmarka aðgengi að áfengum drykkjum eftir því sem kostur væri. Útsölur voru því tiltölulega fáar og afgreiðslumenn afhentu allar flöskur yfir búðarborð með gamla laginu. Mikill troðningur í útsölum fyrir hátíðar þótti sjálfsagður. Nú hefur útsölum fjölgað verulega, búðarborðin eru farin og ÁTVR leggur mikið uppúr því að viðskiptavinurinn telji sig njóta góðrar þjónustu, viðunandi úrvals og gæða en líka hagstæðs verðs þrátt fyrir háa skattlagningu á áfengi. Þannig er í rekstri einokunarfyrirtækisins reynt að höfða til sem flestra þátta sem láta viðskiptavininum líða vel með að kaupa vöruna og neyta hennar (í hófi að sjálfsögðu).  Allir þessir þættir eru óhjákvæmilega söluhvetjandi. Því er ekki lengur litið á vöruna eða viðskiptavininn sem vandamál eins og áður fyrr. Þau rök heyrast líka oft að með því að færa vöruna í almennar verslanir minnki úrval og gæði og álagning hækki, allt atriði sem eru til þess fallin að draga úr viðskiptum.

Mörg samtök velviljaðs fólks sem hefur áhyggjur af ofneyslu áfengra drykkja hafa farið hart fram í andstöðu við lagafumvarp um að afnema ríkiseinokunina. Reyndar er afar hæpið að halda því fram að fyrirkomulag verslunar með áfenga drykki hafi teljandi áhrif á ofneyslu áfengis eða aðgengi þeirra sem á annað borð vilja ná sér í áfengi. Fyrir 50 árum gat hvaða unglingur sem var í hvaða þorpi sem var á landsbyggðinni orðið sér úti um allt það áfengi sem hann eða hún vildi drekka þrátt fyrir að engin væri þar áfengisútsalan. Allt var þetta spurning um skipulag. Og ef verðið í ríkinu þótti of hátt fyrir blanka unglinga var bruggað eins og þurfti.

Það er líka athyglisvert að fylgjast með öllu því púðri sem fer í baráttuna fyrir ríkiseinokuninni í ljósi þess að önnur vímuefni en áfengir drykkir sækja nú mjög á. Af einhverjum ástæðum er áfengið ekki vel samkeppnishæft við aðra vímugjafa, suma löglega en aðra ólöglega. Sjálfsagt skipta þar margir þættir máli s.s. verð, eðli vímunnar og gæði.  Aðgengi virðist nægt fyrir alla sem vilja nálgast þessar vörur.  Nú nýlega var t.d. aðeins fjallað í fréttum um ofneyslu löglegra lyfja (læknadóps) meðal unglinga. Það er sérstaklega athyglisvert í því ljósi að hið opinbera heldur algjölega utanum viðskipti með lögleg lyf, allt frá því að börn eru greind, þau send til læknis, fá lyfjum ávísað og þau leyst út í apóteki. Það virðist í raun lítill munur á umfangi og eðli viðskiptanna hvort heldur í hlut eiga ríkið með sína víðtæku stýringu á markaðnum eða hinir ýmsu einstaklingar sem stunda viðskipti með ólögleg vímuefni. Þeir sem hafa áhuga á geta neytt eða ofneytt allra þessara efna.  (Reyndar má spyrja sig að því hvort börn og unglingar séu sjálf ekki oft betur sett heilsufarslega með því að selja frá sér eitthvað af þessum löglegu vímuefnum sem verið er að troða í þau með blessun og forsjá ríkisins.)

Reyndar er staðan í samkeppninni milli áfengis og annarra vímugjafa orðin sú að það eru ekki til nægilega margir lögreglumenn, dómstólar eða fangelsi til að ná til og rétta yfir þeim sem brjóta lög um vímuefni. Þetta er ekki séríslenskt fyrirbrigði. Það er kaldhæðnislegt til þess að vita að helsta vaxtargrein íslensks landbúnaðar skuli vera ólögleg kannabisrækt sem er mjög líklega að framleiða og selja á innlendum markaði fyrir hærri upphæðir en sauðfjárbændur (sem hafa þó mun hærri markaðshlutdeild sem vandamál í pólitískri umræðu á Íslandi).

Friðþæging er þægileg leið að grípa til þegar annað dugar ekki til að glíma við hin raunverulegu vandamál sem ofneysla áfengra drykkja skapar.  Baráttan fyrir ríkiseinokuninni einkennist óneitanlega af því. Þetta er ekkert einsdæmi og má t.d. nefna að þegar mikil umræða var um hættuna vegna ofsaaksturs á þjóðvegum landsins (130 kílómetrar plús) var gripið til þess ráðs að byrja að sekta alla sem óku á milli 95 og 100 kílómetra hraða. Og svo má líka nefna að á verðbólguárunum miklu þegar spjótin stóðu á Seðlabankanum sem var ráðalaus þótti betra innan bankans að veifa frekar röngu tré en öngvu.

Ríkiseinkasala á áfengi leysir ekki áfengisvandann og virðist litlu máli skipta til eða frá.  Sama gildir um víðtæka ríkisforsjá á öllu sem viðkemur ofneyslu á löglegum lyfjum.  Ríkiseinokunin á áfenginu skapar hins vegar margvíslega óeðlilega viðskiptahætti og inngrip í eðlilega uppbyggingu verslunar. Sem dæmi er það varla eðlilegt hlutverk starfsmanna ríkisins að veita viðskiptavinum ráð um hvort þeir eigi að versla við einn framleiðanda frekar en annan. Slíkt er þó óhjákvæmilegt þegar viðskiptavinurinn óskar eftir áliti á mismunandi vörutegundum. Öðrum viðskiptavinum þykir heldur ekki eðlilegt að ríkið ákveði yfirleitt hvaða tegundir áfengra drykkja þeir kaupa heldur vilja að það ráðist með sambærilegum hætti og gildir fyrir aðrar löglegar vörur á markaði. Margt mætti segja um aðgang framleiðenda að markaðnum, sérstaklega nýrra framleiðenda sem verður óhjákvæmilega afar sérstakur og takmarkaður undir ríkiseinokun svo ekki sé minnst á markaðssetningu áfengra drykkja sem er víðtæk þrátt fyrir auglýsingabann. Framleiðendur mega t.d. ekki selja vöru sína beint til neytenda hvort sem það er brugghús í sveitinni eða stórir framleiðendur.

Þá vakna jafnan miklar spurningar um skipulagsmál þvi að staðsetning á áfengisútsölum hefur mikil áhrif á samkeppnishæfni einstakra verslana og verslunarkjarna. Um þetta eru mörg dæmi og fræg allt frá því að verslunareigendur fengu fyrst tiltrú á Kringlunni í Reykjavík eftir að búið var að samþykkja að þar kæmi áfengisútsala og í framhaldinu fór verslun á Laugaveginum í lægð. Mörg fleiri dæmi má rekja um hvernig ríkiseinokunin hefur haft óeðlileg áhrif.

Þegar upp er staðið er affarasælast fyrir neytendur og alla þá sem stunda þessi viðskipti að afnema ríkiseinokunina. Baráttan gegn ofneyslu áfengis vinnst ekki í ÁTVR.  Orkunni sem fer í að vinna gegn venjulegum viðskiptaháttum á þessum markaði er betur varið með þvi að glíma beint við vandann.

 

Vilhjálmur Egilsson

Höf. er fyrrverandi alþingismaður sem flutti frumvarp um afnám einokunar í áfengisverslun.