Af rjúpum, mönnum og veiðum

Trausti Tryggvason

Frá mínum bæjardyrum séð finnst mér löngu tímabært að gefa rjúpunni séns og alfriða hana hér á landi um eitthvert tímabil t.d. 8 – 10 ár og sjá hvað setur eftir þann tíma. Skoða þá afrakstur friðunarinnar með fuglafræðingum, plöntufræðingum og völdum hópi veiðimanna. Nú er svo að sitt sýnist hverjum um framgang rjúpunnar á síðustu árum og veiðar leyfðar yfir ákveðið tímabil ár hvert. Fram koma ýmsar skoðanir manna um hversu langt veiðitímabilið á að vera og ekki bætir um betur þegar veðurfar er erfitt þá veiðidaga sem eru ætlaðir til veiða og í einfeldni má hugsa sér að himnasmiðurinn sé að vernda sköpunarverk sitt.

Fyrst veiðar á rjúpu eru leyfðar á annað borð er í lófa lagið að bæta einni helgi við en taka út alla föstudaga í staðinn sem eru áætlaðir til veiða. Ég sem hélt að menn væru að vinna á föstudögum, af hverju eru föstudagar settir inn sem veiðidagar, er ekki alveg nóg að hafa laugardaga og sunnudaga til að sinna þessari áhuga sportveiði sem kostar samfélagið okkar að mínu mati allt of mikið? Ég tel að veiðar á rjúpum (ef þær eru leyfðar á annað borð) eigi að fara fram í október jafnvel einnig í síðustu viku september mánaðar. Á þessu tímabili er rjúpan betur á sig komin og leiða má líkum að því að fleiri einstaklingar fylli stofninn en ella og veðráttan heldur betri en í nóvember þótt allra veðra sé von þegar kemur fram í byrjun október. Fuglar og þá aðallega íslenskir varpfuglar hafa átt hug minn allan síðustu 55 árin og er ég enn vel virkur. Þegar ég horfi til baka yfir liðin ár er alveg ljóst að rjúpum hefur fækkað og maður þarf að hafa talsvert fyrir því að sjá karra sitjandi uppi að vori sem var ekki á árum áður. Nú er ekki svo að ég sé bundinn einhverju ákveðnu svæði á landinu og meti skoðanir mínar út frá því eingöngu. Við hjónin erum að ferðast um landið okkar á ári hverju sem nemur 48 – 55 þúsund kílómetra akstri og nær allstaðar á landinu er sama sagan varðandi rjúpuna það má sjá bara einn og einn karra ef vel er að gáð.

 

Trausti Tryggvason

Höfundur er framhaldsskólakennari og skógarmaður.