Af grátbroslegri stjórnsýslu Borgarbyggðar

Jón Gíslason

Þegar barist var fyrir sameiningu þeirra sveitarfélaga sem Borgarbyggð nú samanstendur af þá var ein megin röksemdin sú að með því móti næðist skilvirkari og einfaldari stjórnsýsla. Til þess hefur mér orðið hugsað þegar undanfarið hef fylgst með einfaldri ósk fjallskilanefndar Oddsstaðaréttar á stjórnlitlu reki um kerfið.

Að undangenginni skoðanakönnun samþykkti fjallskilanefnd Oddsstaðaréttar að óska eftir því að fyrri Oddsstaðarétt yrði flýtt um eina viku frá því sem segir í fjallskilareglugerð. Þessi samþykkt var send fjallskilanefnd Borgarbyggðar til staðfestingar og var þar samþykkt. Þá var komið að byggðarráði sem á fundi 21. júlí hafnaði erindi nefndarinnar.  Hins vegar ber svo við að á fundi byggðarráðs 4. ágúst er þessari ákvörðun snúið við í ljósi frekari upplýsinga.  En ekki er sagan þar með öll sögð því á fundi 11. ágúst sl. hnekkti sveitarstjórn þessari ákvörðun enn og úrskurðaði að réttað skyldi á þeim degi sem reglugerð mælir fyrir um.

Sem sagt: Þessi einfalda ákvörðun þarf að fara fyrir fjögur stjórnsýslustig, þar af tvívegis fyrir byggðarráð. Þetta gefur svo sem þeim sem eru lengi að átta sig færi á að mynda sér skoðun, sbr. Finnboga Leifsson sem sat hjá við afgreiðslu fjallskilanefndar Borgarbyggðar en hafði svo frumkvæði að því að fella tillöguna í sveitarstjórn. Augljóslega gaf þessi málsmeðferð líka færi á að skipta um skoðun oftar en einu sinni þeim sem oft komu að málinu, sbr. þá byggðarráðsfulltrúa sem felldu tillöguna fyrst í byggðarráði og samþykktu hana svo þar, en voru aftur orðnir á móti í sveitarstjórn.  Ragnar Reykás hefði ekki gert betur. Hann er þó ekki í sveitarstjórninni en þar situr Ragnar Frank Kristjánsson, því skal til haga haldið að hann vildi, einn sveitarstjórnarmanna, láta heimamenn sjálfa ráða sínum réttardegi og á þakkir skyldar fyrir. Verst ef ég þarf að kjósa Vinstri græna í næstu sveitarstjórnarkosningum hans vegna.

Mín niðurstaða er sú að við búum við óboðlega stjórnsýslu og ekki sérlega hæfa sveitarstjórn.

 

Jón Gíslason, Lundi.