Fulltrúar Rjómabúsins Erpsstaða með Fjöreggið. F.v. Þorgrímur Einar Guðbjartsson, Gunnlaug Birta Þorgrímsdóttir og Dave Niemiec ostagerðarmaður. Ljósm. Rjómabúið Erpsstaðir.

Rjómabúið Erpsstaðir er handhafi Fjöreggsins

Rjómabúið Erpsstaðir hlaut í gær Fjöreggið 2018 fyrir frumkvöðlastarf á sviði matvælaferðamennsku og þróun afurða úr eigin framleiðslu. Viðurkenningin er veitt árlega af Matvæla- og næringarfræðafélagi Íslands, með stuðningi Samtaka iðnaðarins, fyrir lofsvert framtak á matvæla- og næringarsviði. Það var Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, sem afhenti Fjöreggið á Matvæladegi MNÍ sem haldinn var sama dag.

Rjómabúið Erpsstaðir var sem kunnugt er stofnað árið 2009 þegar ábúendur þar á bæ hófu ísframleiðslu. Fyrsta sumarið var einungis seldur ís beint frá býli en frá því veturinn 2009-2010 hafa ábúendur á Erpsstöðum stöðugt aukið við framleiðsluna. Í dag framleiðir Rjómabúið gamaldags skyr, tvær tegundir af ostum, margar ístegundir og skyrkonfekt sem þróað var og hannað í samvinnu við námskeið á vegum Listaháskóla Íslands og Matís sem kallaðist „Stefnumót hönnuða og bænda“. Á Erpsstöðum er ennfremur rekin sveitaverslun sem selur vörur fyrirtækisins.

Önnur fyrirtæki og verkefni sem tilnefnd voru til Fjöreggs MNÍ 2018 voru AstaLýsi, Efstidalur II, Heilsuprótein og Matartíminn.

Þorgrímur Einar Guðbjartsson á Erpsstöðum segir í samtali við Skessuhorn að viðurkenningin hafi komið sér á óvart. „Við fengum fyrst að vita um tilnefninguna í síðustu viku. Ég vissi ekki hverjir aðrir voru tilnefndir en þegar maður mætti á staðinn fannst mér þetta ekkert vera neitt borðleggjandi. Þarna voru aðrir aðilar með töluvert merkilega vöru sem ég hélt að myndu svífa á þetta. Þannig að þetta var mjög kærkomið og óvænt,“ segir Þorgrímur ánægður. „En auðvitað er líka mjög gaman að fá þessa viðurkenningu. Núna vorum við ljúka tíunda sumrinu okkar í ferðaþjónustunni, þannig að þetta eru skemmtileg tímamót og við munum reyna að standa undir þessu.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir