Zac Carter átti stórleik í sigri Skallagríms. Ljósm. Skallagrímur.

Skallagrímur vann baráttusigur á Hamri

Skallagrímsmenn gerðu góða ferð austur í Hveragerði á föstudag og sigruðu Hamar, 88-100, í 1. deild karla í körfuknattleik.

Skallagrímur byrjaði betur í leiknum og leiddi með sex stigum um miðjan fjórðunginn, 8-14. Þá tóku heimamenn góða rispu, náðu forystunni og höfðu tveggja stiga forskot eftir fyrsta leikhluta, 20-18. Hamarsmenn höfðu undirtökin í öðrum fjórðungi. Þeir náðu níu stiga forskoti um hann miðjan en eftir það sóttu Skallagrímsmenn í sig veðrið. Borgnesingar minnkuðu muninn í eitt stig, skömmu fyrir hálfleik en voru fjórum stigum á eftir í hléinu, 47-43.

Leikurinn var jafn og spennandi eftir hléið. Hvergerðingar leiddu en Borgnesingar fylgdu þeim eins og skugginn. Seint í leikhlutanum náði Hamar góðum spretti og tíu stiga forystu. Virtist sem þeir ætluðu að sigla með það forskot inn í lokafjórðunginn en leikmenn Skallagríms voru ekki á þeim buxunum. Þeir kláruðu leikhlutann af miklum krafti svo aðeins munaði einu stigi fyrir fjórða og síðasta leikhlutann, 73-72. Það var síðan í upphafi lokafjórðungsins að Skallagrímsmenn lögðu grunninn að sigri í leiknum. Með góðum spretti komust þeir í 76-82 og litu aldrei til baka eftir það. Þeir bættu við forystuna það sem eftir lifði og héldu heimamönnum í skefjum. Að lokum fór svo að þeir unnu tólf stiga baráttusigur, 88-100.
Zac Carter átti stórleik fyrir Skallagrím og skoraði 36 stig. Eyjólfur Ásberg Halldórsson skoraði 16 stig, tók 9 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Darrell Flake var með 15 stig og 9 fráköst og Atli Aðalsteinsson skoraði 16 stig og tók 7 fráköst.

Skallagrímur hefur fullt hús stiga eftir fyrstu þrjár umferðir vetrarins og situr sem stendur í öðru sæti 1. deildarinnar. Toppsætið vermir Breiðablik með jafn mörg stig en næstu lið á eftir hafa fjögur stig. Næsti deildarleikur Skallagríms fer fram föstudaginn 27. október næstkomandi. Er það nágrannaslagur við ÍA. Verður hann leikinn í íþróttahúsinu við Vesturgötu á Akranesi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Sýningu Ísaks Marvins lýkur í dag

Grundfirðingurinn Ísak Marvins opnaði myndlistasýningu sína, Innsýn, í Samkomuhúsi Grundarfjarðar fimmtudaginn 18. október síðastliðinn. Sýningin er liður í dagskrá Rökkurdaga.... Lesa meira