Hugsanleg ásýnd íþróttasvæðisins á Jaðarsbökkum í framtíðinni. Búið að reisa tengibyggingu með íþróttahúsi milli Akraneshallar og núverandi íþróttamannvirkja og byggja sundhöll þar sem íþróttahúsið er nú. Teikning: Ask arkitektar.

Hugsanleg framtíðarásýnd Jaðarsbakka kynnt á Akranesi

Fyrir skömmu var kynnt áfangaskýrsla um hugsanlega framtíðarsýn íþróttasvæðisins á Jaðarsbökkum á Akranesi. Skýrslan er unnin af starfshópi sem skipaður var til að fjalla um uppbyggingu Jaðarsbakkasvæðisins. Kynningarfundinn sátu fulltrúar bæjarráðs, skóla- og frístundaráðs og skóla- og frístundasviðs Akraneskaupstaðar.

Starfshópurinn hafði það hlutverk að framkvæma þarfagreiningu vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar svæðisins og leggja fram tillögur í samráði við hagsmunaaðila. Einnig að gera tillögur um áfangaskiptingu framkvæmda. Fyrstu drög að hugsanlegri framtíðaruppbyggingu á Jaðarsbökkum fara hér á eftir.

Nýbygging rísi milli Akraneshallar og íþróttahússins á Jaðarsbökkum. Þar verði kjallari með aðstöðu fyrir starfsfólk og íþróttakennara, auk búningsklefa. Á jarðhæð verði byggt nýtt íþróttahús. Þar sem núverandi íþróttahús á Jaðarsbökkum er staðsett er lagt til að reist verði sundhöll með átta brautum ásamt stoðrýmum. Jafnvel eru hugmyndir uppi um að nýta grindina úr núverandi íþróttahúsið í burðarvirki fyrir reiðhöll á Æðarodda.

Að lokum er lagt til að öll mannvirkin verði samtengd og einn inngangur verði að öllu íþróttasvæðinu.

Einnig hefur komið fram tillaga um að loka Innnesvegi milli Grundaskóla og Jaðarsbakka til að tryggja öryggi barna og nýta svæðið betur, að því er fram kemur á vef Akraneskaupstaðar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir