Flandrahópurinn og nokkrir vildarvinir fyrir utan hótelið í Bregenz að morgni hlaupadags. Ljósm. Torfi Bergsson.

Borgnesingar áberandi í Þriggjalandamaraþoninu

Um nýliðna helgi tók 23ja manna hópur frá Hlaupahópnum Flandra í Borgarnesi þátt í svonefndu Þriggjalandamaraþoni, sem fram fór í Þýskalandi, Austurríki og Sviss. Fimm úr hópnum hlupu heilt maraþon (42,2 km), sex hlupu hálft maraþon (21,1 km) og átta tóku þátt í svokölluðu kvartmaraþoni (10,9 km), ýmist gangandi eða á hlaupum. Fjórir til viðbótar voru svo í stuðningsliðinu sem hvatti hlauparana til dáða og sáu til þess að ekkert færi úrskeiðis.

Ingveldur Ingibergsdóttir náði bestum árangri Borgnesinganna, en hún varð í 2. sæti af 106 þátttakendum í sínum aldursflokki í hálfmaraþoni á 1:41:59 klst. Hjalti Rósinkrans Benediktsson náði hins vegar bestum árangri maraþonhlauparanna, en hann varð í 123. sæti af 760 körlum á öllum aldri á 3:14:42 klst. Þetta var fjórða maraþon Hjalta og bæting á hans fyrri árangri um 5 mínútur.

Þriggjalandamaraþonið er haldið árlega og hefst á eyjunni Lindau í Þýskalandi. Þaðan er hlaupið meðfram strönd vatnsins Bodensee í átt að Bregenz í Austurríki og síðan áfram yfir Rínarfljót og svissnesku landamærin. Skömmu síðar er snúið við og hlaupið til baka til Bregenz þar sem hlaupinu lýkur. Þátttakendur í styttri vegalengdunum hefja hlaupið einnig á Lindau, en verða að láta sér nægja að ferðast um tvö lönd á leiðinni.

Samtals tóku um 100 Íslendingar þátt í Þriggjalandamaraþoninu að þessu sinni, flestir fyrir tilstuðlan Bændaferða sem skipulögðu hópferð til Bregenz. Í austurrískum fjölmiðlum var nokkuð fjallað um þátttöku Íslendinganna, en íslenski hópurinn var sá stærsti utan heimalandanna Þýskalands, Austurríkis og Sviss. Samtals voru þátttakendurnir um 6 þúsund talsins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir