Kristín með hryssuna sína Von. Aðstaðan á Lauglandi er samtengd hesthúsinu og því getur Kristín tekið á móti hestum í „innlögn“ ef þeir þurfa lyfjagjöf daglega eða tíð umbúðaskipti. Ljósm. kgk.

„Var alltaf draumur að koma heim aftur og starfa í Borgarfirði“

Kristín Þórhallsdóttir frá Laugalandi í Borgarfirði lærði til dýralæknis í Kaupmannahöfn og útskrifaðist árið 2013. Hún hóf að starfa sem dýralæknir 2012, samhliða vinnu við lokaverkefni sitt, og hefur starfað undanfarin ár á Dýralæknamiðstöðinni á Hellu. Á síðasta ári flutti hún heim á æskuslóðir sínar ásamt fjölskyldu sinni og hefur nú opnað stofu á Laugalandi. „Það var alltaf draumurinn að koma heim eftir útskrift og byrja að starfa sem dýralæknir í Borgarfirði. En af því að hér er engin dýralæknamiðstöð þá var í raun það eina í stöðunni að gerast sjálfstætt starfandi dýralæknir,“ segir hún. Sú varð einmitt raunin þegar hún flutti heim í fyrra. „Ég var þá í fæðingarorlofi en byrjaði að starfa sem dýralæknir í nóvember í fyrra. Þá var stofan ekki tilbúin, en ég stofnaði rekstur sem heitir Dýralæknirinn Borgarfirði og byrjaði að taka vaktir,“ segir Kristín. Aðspurð segir hún hafa gengið vel það sem af er. „Verkefnunum er alltaf að fjölga jafnt og þétt. Eftirspurnin eftir minni þjónustu hefur verið í samræmi við það sem ég gerði ráð fyrir og heldur meiri upp á síðkastið,“ segir hún. „Það er gaman að geta snúið heim eftir mörg í námi og starfað við sitt fag.“

Á stofunni á Laugalandi getur Kristín framkvæmt allar almennar aðgerðir, svo sem geldingar og ófrjósemisaðgerðir, eyrnahreinsanir og allar almennar skoðanir. Aðstaðan er samtengd hesthúsinu og því getur hún tekið á móti hestum í „innlögn“ ef þeir þurfa lyfjagjöf daglega eða tíð umbúðaskipti.

Nánar er rætt við Kristínu í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir