Aðalsteinn Jósepsson, eða Steini Jobba, fer yfir málin með sínum mönnum síðasta vetur. Hér hefur hann brugðið sér í hlutverk þjálfara, en hann er jafnframt framkvæmdastjóri og leikmaður Grundarfjarðarliðsins. Ljósm. tfk.

Setja markið á eitt af fjórum efstu sætunum

Grundfirðingar hefja leik í 3. deild karla í körfuknattleik næstkomandi laugardag, 14. október. Fyrsti leikurinn er heimaleikur á móti Stál-úlfi og hefst hann kl. 14:00 í íþróttahúsinu í Grundarfirði. Aðalsteinn Jósepsson, eða Steini Jobba, er potturinn og pannan í körfuknattleiksliði Grundfirðinga. Hann kveðst bíða komandi veturs með eftirvæntingu, þó á tímabili hafi verið tvísýnt með þátttöku Grundfirðinga í Íslandsmótinu þetta skiptið.

„Það leit út fyrir það á tímabili að við myndum ekki ná í lið. Vegna aldurs og meiðsla eru þrír leikmenn úr sjö manna kjarna frá því í fyrra sem geta ekki verið með í ár,“ segir Steini í samtali við Skessuhorn. „En sem betur fer eigum við góða að í Snæfelli og Ingi Þór þjálfari bjargaði okkur alveg. Verið er að undirbúa venslasamning og félagaskipti milli liðanna þannig að við fáum sex unga og efnilega leikmenn úr röðum Snæfells,“ segir hann ánægður. „Þannig að við verðum með í mótinu í ár og ég er hæstánægður með það. Strákarnir frá Snæfelli munu spila með okkur í vetur og það sem er ekki síður mikilvægt, þeir munu æfa með okkur tvisvar í viku. Það er alveg nauðsynlegt að vera með öflugar æfingar, geta haldið uppi góðu tempói og góðri samkeppni á æfingunum. Þá eru þær sem líkastar því sem verður í leikjum,“ bætir hann við.

Nánar er rætt við Steina Jobba í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir