Christian Covile átti stórleik í sigri Snæfells. Ljósm. úr safni/ sá.

Snæfell sigraði FSu í spennandi leik

Snæfell lék fyrsta heimaleik vetrarins í 1. deild karla í körfuknattleik í gær þegar liðið mætti FSu í Stykkishólmi. Eftir jafnan og spennandi leik kræktu Snæfellingar í fyrsta sigur vetrarins, 110-103.

Mikið jafnræði var með liðunum í upphafi leiksins og liðin skiptust á að leiða. Varnarleikur liðanna sat aðeins á hakanum og fyrir vikið var mikið skorað í upphafsfjórðungnum. FSu leiddi með tveimur stigum að honum loknum, 26-28. Leikurinn var í járnum í öðrum fjórðungi. Staðan var jöfn þar til komið var fram yfir miðjan fjórðunginn. Þá náði Snæfell forystunni og leiddi með þremur stigum í hálfleik, 50-47.

Svipað var uppi á teningnum í síðari hálfleik. Snæfellingar bættu varnarleikinn lítið eitt í þriðja leikhluta og náðu að gera smá áhlaup. Gestirnir gáfu hins vegar ekkert eftir og aðeins munaði tveimur stigum fyrir lokaleikhlutann. Snæfell leiddi í lokafjórðungnum en liðsmenn FSu fylgdu þeim eins og skugginn. Gestirnir minnkuðu muninn í eitt stig um miðjan leikhlutann. Snæfell svaraði með góðum spretti og komst í 98-91 þegar þrjár mínútur lifðu leiks. Fsu minnkaði muninn í þrjú stig en nær komust þeir ekki. Snæfell kláraði leikinn á síðustu mínútunum og sigraði með sjö stigum, 110-103.

Christian Covile átti stórleik fyrir Snæfell, skoraði 37 stig og tók 13 fráköst. Viktor marinó Alexandersson skoraði 18 stig, Geir Elías Úlfur Helgason skoraði 17, Jón Páll Gunnarsson 13 og Nökkvi Már Nökkvason 12 stig.

Með sigrinum krækti Snæfell í fyrstu stig vetrarins. Fær liðið tækifæri til að halda stigasöfnuninni áfram næstkomandi föstudag, 13. október, þegar liðið mætir Fjölni á útivelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir