Kristen McCarthy átti magnaðan leik og setti 53 stig fyrir Snæfell. Ljósm. fengin af Facebook-síðu kkd. Snæfells.

Kristen með 53 stig þegar Snæfell sigraði Skallagrím

 

Snæfell bar siguorð af Skallagrími, 73-84, í Vesturlandsslag Domino‘s deildar kvenna í körfuknattleik. Leikurinn fór fram í Borgarnesi í gær.

Leikurinn fór fremur hægt af stað. Snæfell setti fyrstu stigin en Skallagrímskonur áttu erfitt með að finna taktinn og hefðu ekki geta keypt sér körfu fyrstu mínúturnar. Snæfell komst í 0-10 áður en Skallagrímsliðið skoraði fyrstu stigin. Þegar þær loksins fundu körfuna var sem leikurinn snerist á punktinum. Þær tóku góðan sprett á sama tíma og Snæfellsliðið hætti að hitta og tapaði boltanum hvað eftir annað. Skallagrímur jafnaði í 12-12 og leiddi 14-12 þegar leikhlutinn var úti.

Mikið jafnræði var með liðunum í öðrum fjórðungi sem einkenndist af mikilli baráttu. Snæfell jafnaði metin en Skallagrímur komst yfir að nýju og leiddi með nokkrum stigum allt til hálfleiks. Þá var staðan 34-28, Borgnesingur í vil.

Baráttan hélt áfram í síðari hálfleik. Snæfell jafnaði metin og spennan farin að magnast í salnum. Kristen McCarthy var í miklu stuði þegar þarna var komið við sögu en það var Sigrún Sjöfn Ámundadóttir einnig og liðin skiptust á að skora. Snæfell leiddi með fimm stigum að loknum þriðja leikhluta, 55-60.

Kristen skoraði fyrstu fimm stig lokafjórðungsins og kom Snæfelli tíu stigum yfir áður en Skallagrímur minnkaði muninn í fimm stig að nýju. Liðin skiptust á að skora næstu mínúturnar en þá var eins og lok hefði verið sett á báðar körfurnar. Allt þar til Kristen tók sig til og setti tvær mikilvægar körfur seint í leiknum og kom Snæfelli í 69-77 þegar rétt rúmar tvær mínútur lifðu leiks. Skallagrímskonur freistuðu þess að komast inn í leikinn með því að stoppa klukkuna og senda gestina á vítalínuna. Þar brást andstæðingunum ekki bogalistin og þær kláruðu leikinn af línunni. Snæfell hafði að lokum sigur, 73-84.

 

Ótrúlegur leikur Kristen

Kristen McCarthy átti ótrúlegan leik fyrir Snæfell. Hún skoraði hvorki fleiri né færri en 53 stig og tók 14 fráköst að auki.. Næst henni kom Rebekka Rán Karlsdóttir með 15 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar.

Carmen Tyson-Thomas var atkvæðamest leikmanna Skallagríms með 25 stig og 12 fráköst. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir var með 20 stig og 8 fráköst og Jóhanna Björk Sveinsdóttir skoraði 12 stig og tók 10 fráköst.

Eftir fyrstu tvær umferðir Domino‘s deildar kvenna hafa bæði Snæfell og Skallagrímur unnið einn leik og hafa tvö stig í deildinni. Næsta umferð fer fram miðvikudaginn 11. október næstkomandi. Skallagrímur mætir Val á útivelli en Snæfell tekur á móti Haukum í Stykkishólmi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir