Eyjólfur Ásberg Halldórsson átti góðan leik fyrir Skallagrím. Ljósm. Skallagrímur.

Skallagrímsmenn byrja mótið á sigri

Fyrsti leikur 1. deildar karla í körfuknattleik fór fram þegar Skallagrímur heimsótti lið FSu á Selfoss.

Skallagrímur bar sigurorð af liði FSu þegar liðin mættust í upphafsleik 1. deildar karla í körfuknattleik í gær. Um hörkuleik var að ræða sem Skallagrímur sigraði með sex stigum, 82-88.

Jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar en Borgnesingar voru ákveðnir og náðu góðum tökum á leiknum í upphafsfjórðungnum. Þeir leiddu með 14 stigum að honum loknum,18-32. Forskot Skallagríms hélst að kalla óbreytt meira og minna allan annan leikhluta og þeir leiddu í hálfleik, 43-56.

Heimamenn komu ákveðnir til síðari hálfleiks. Þeir náðu að minnka forskot Skallagríms niður í þrjú stig í þriðja leikhluta. Borgnesingar tóku þá smá rispu og juku forystuna upp í níu stig fyrir lokafjórðunginn, 66-75. Aftur gerðu heimamenn í FSu áhlaup í upphafi fjórða leikhluta. Þeir héldu Skallagrímsmönnum stigalausum fyrstu mínútur hans og minnkuðu muninn í tvö stig, 73-75. Skalagrímur náði að rífa sig frá en aftur mminnkuðu heimamenn forskotið, nú niður í aðeins eitt stig, 78-79 og aðeins þrjár mínútur eftir af leiknum. Skallagrímsmenn stóðu sína plikt á lokamínútunum og sigruðu með sex stigum, 82-88.

Eyjólfur Ásberg Halldórsson var atkvæðamestur í liði Skallagríms með 22 stig. Zachary Alan Carter skoraði 19 stig og gaf 8 stoðsendingar og reynsluboltinn Darrell Flake var með 17 stig og 13 fráköst. Stigahæstur heimamanna var Ari Gylfason með 21 stig en hann tók 9 fráköst að auki.

Næst leikur Skallagrímur á laugardaginn, 8. október þegar liðið mætir Fjölni. Sá leikur fer fram í Borgarnesi kl. 16:00.

Líkar þetta

Fleiri fréttir