Þegar söluátaki Bleiku slaufunnar var hrundið af stað fyrir helgi nældi Sigríður Helga Skúladóttir formaður Krabbameinsfélags Borgarfjarðar einni af fyrstu slaufunum í barm Önnu Drafnar Sigurjónsdóttur hvunndagshetju.

Fréttir frá Krabbameinsfélagi Borgarfjarðar

Í lok síðasta mánaðar fór formannafundur Krabbameinsfélags Íslands fram á Hótel Hamri við Borgarnes. Þangað mættu fulltrúar víðsvegar að af landinu. Á þessum fundi bera félögin jafnan saman bækur sínar um helstu áherslumál, en samvinna og samstarf er félagsstarfinu til framdráttar. Gestur á fundinum var Þröstur Emilsson frá Almannaheillum. Hann velti upp spurningunni: „Skiptir þetta félagsstarf einhverju máli?“ Fram kom í erindi hans að svarið er tvímælalaust „já,“ að félagsstörf skipti máli. Krabbameinsfélagið og önnur félög hafa komið mörgum góðum málum á skrið og verið öflugur málsvari ýmissa sjúklingahópa, veitt aðhald og beitt þrýstingi við stjórnvöld.

 

Bleika slaufan til stuðnings Ráðgjafaþjónustunni

Eitt af því sem Krabbameinsfélögin hafa unnið að í sívaxandi mæli er ráðgjöf og stuðningur. Ráðgjafaþjónusta KÍ er tíu ára á þessu ári og hefur fyrir löngu sannað gildi sitt. Þar starfar fagfólk svo sem hjúkrunarfræðingar, félagsráðgjafar og sálfræðingar. Til Ráðgjafaþjónustunnar geta einstaklingar og fjölskyldur þeirra leitað sér aðstoðar og upplýsinga, bæði fyrir og eftir greiningu og meðferð, sér að kostnaðarlausu.

Nú hefur verið ákveðið að allur ágóði af söluátaki Bleiku slaufunar nú í haust mun renna til Ráðgjafaþjónustunnar. Krabbameinsfélag Borgarfjarðar tók þátt fyrsta söludegi Bleiku slaufunnar föstudaginn 28. september og nældi slaufu í boðunginn á Önnu Dröfn Sigurjónsdóttur hvunndagshetju. Þess má geta að í Skessuhorni í þessari viku birtist ítarlegt viðtal við Önnu Dröfn um baráttuna hennar við illvígt krabbamein.

 

Kallar eftir áhugasömum í stjórn

Sigríður Helga Skúladóttir í Borgarnesi hefur til fjölda ára verið í formennsku fyrir Krabbameinsfélag Borgarfjarðar. Hún tilkynnti á aðalfundi Krabbameinsfélags Borgarfjarðar á síðasta ári að hún gæfi ekki kost á sér til áframhaldandi starfa. Fyrirhugað er að halda aðalfund þessa árs nú um miðjan nóvember og því leitar félagið út í samfélagið og kallar eftir þátttöku frá áhugasömu fólki sem er tilbúið að ganga til liðs við Krabbameinsfélagið og starfa í stjórn þess. „Kæru sveitungar; starf í krabbameinsfélagi sem og öðrum félögum er gefandi, fræðandi og skemmtilegt. Ég hvet ykkur til að styðja við bakið á félaginu og styrkja starfsemi þess,“ segir í yfirlýsingu frá stjórn Krabbameinsfélags Borgarfjarðar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Slasaðist við Glym

Björgunarsveitir á Vesturlandi voru kallaðar út rétt fyrir klukkan átta í gærkvöldi. Ungur karlmaður hafði hrasað og dottið illa í... Lesa meira