Guðni Ágústsson og Jóhannes Kristjánsson saman á ferð.

Eftirherman og orginalinn í Bíóhöllinni laugardaginn 7. október

Þeir Guðni Ágústsson og Jóhannes Kristjánsson munu láta gamminn geysa með skemmtun sína; Eftirherman og orginalinn, í Bíóhöllinni á Akranesi laugardaginn 7. október nk. Þeir boða magnað skemmtikvöld með gamansögum og eftirhermum. Þeir félagar byrjuðu að skemmta saman í fyrravor og komu þá fram á 18 skemmtunum, flestum í Salnum í Kópavogi, Landnámssetrinu í Borgarnesi og á Suðurlandi. Nú hafa þeir tekið upp þráðinn að nýju og skemmta víða um land. Jóhannes eftirherma á 40 ára upptroðsluafmæli á þessu ári og segir Guðni Ágústsson það afar skemmtilegt og gefandi að koma fram með honum.

„Það er mikið hlegið, mikið grín,“ segir Guðni og kveður sterkt að orði eins og landsmenn þekkja. „Það er gott fyrir alla að komast í gott leikhús og hlæja í tvo tíma, það hreinsar lungur og nærir andann. Við gerum góðlátlegt grín að mörgum, lífs og liðnum, margir orginalar sem koma við sögu,“ segir Guðni.

Sjálfur segist Guðni vera einn af þeim karakterum sem Spaugstofan, Jóhannes eftirherma og fleiri grínarar tóku fyrir meðan hann var enn í pólitík. „Það var fyrir okkur stjórnmálamenn lífsnauðsynlegt að gert væri grín að okkur sem oftast. Það tryggði okkur einatt farsæla endurkosningu, við vorum ekki auðgleymanlegir,“ segir hann. Guðni bætir við að þeir hyggi á ferðalag víðar um Vesturland á komandi vikum þótt tímasetningar liggi ekki fyrir. „Við ætlum m.a. að koma fram í Stykkishólmi og örugglega hjá vinum okkar sauðfjárbændum í Dölum. Við fyllum húsin,“ sagði Guðni sem lofar skotheldri skemmtun.

Vegna villu í auglýsingu sem birtist í Skessuhorni er hér með áréttað að þeir Guðni og Jóhannes boða til skemmtikvöldsins í Bíóhöllinni laugardaginn 7. október næstkomandi. Miðasala fer fram á miði.is og við innganginn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Sýningu Ísaks Marvins lýkur í dag

Grundfirðingurinn Ísak Marvins opnaði myndlistasýningu sína, Innsýn, í Samkomuhúsi Grundarfjarðar fimmtudaginn 18. október síðastliðinn. Sýningin er liður í dagskrá Rökkurdaga.... Lesa meira