Sjö þingmenn NV kjördæmis flytja frumvarp um vegagerð um Teigsskóg

Sjö af átta þingmönnum Norðvesturkjördæmis, allir utan Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur VG, munu á næsta fundi Alþingis leggja fram frumvarp þess efnis að veita Vegagerðinni leyfi til framkvæmda á leið Þ-H á Vestfjarðarvegi (60), sem liggur um Teigsskóg í vestanverðum Þorskafirði. Þrátt fyrir að vera ekki meðflutningsmaður er Lilja Rafney, samkvæmt heimildum Skessuhorns, engu að síður fylgjandi því að málið komist á rekspöl. „Samstaða er meðal allra þingmanna kjördæmisins að málið komist úr þeirri kyrrstöðu sem það hefur verið í og fái framgang í samræmi við matsskýrslu Vegagerðarinnar og álit Skipulagsstofnunar,“ segir Teitur Björn Einarsson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, en hann hefur fyrir hönd þingmannanna sjö sent fjölmiðlum yfirlýsingu vegna þessa.

„Ekki þarf að fjölyrða um brýna nauðsyn þess að ráðast í vegabætur á svæðinu sem um ræðir, enda ber gamli malarvegurinn um Gufudalssveit ekki lengur þá umferð sem um hann fer og skapar alvarlega hættu,“ segir Teitur Björn. „Óásættanleg töf hefur nú þegar orðið á málinu en það hefur nú velkst í kerfinu í tæp 15 ár. Flutningsmenn telja ekki ásættanlegt að íbúar svæðisins þurfi lengur að líða fyrir þær miklu ógöngur sem leyfi til framkvæmda hefur þurft að feta. Það hefur varla verið vilji löggjafans að hægt sé að halda jafn brýnni samgöngubót í gíslingu flækjustigs stjórnsýslunnar í jafn langan tíma og raun ber vitni. Tafir á uppbyggingu Vestfjarðarvegar um Gufudalssveit eru án fordæmis og því getur veiting framkvæmdaleyfis með sérstökum lögum nú heldur ekki verið fordæmisgefandi. Tímabært er að umræða um rétt íbúa gegn svifaseinni stjórnsýslu eigi sér stað.“

Nú er staða málsins sú að öll efnisleg atriði liggja fyrir í nýju mati á umhverfisáhrifum og í áliti Skipulagsstofnunar. Búið er að taka tillit til margvíslegra athugasemda, draga verulega úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar á umhverfið og eldri ágreiningsefni um stjórnsýslumeðferðina heyra enn fremur sögunni til. En enn á ný eru tafir á framkvæmdum og snúa þær tafir að málsmeðferð er varðar veitingu framkvæmdaleyfis.

Flutningsmenn frumvarpsins telja nauðsynlegt að löggjafinn grípi nú um tauma í þeim tilgangi að koma í veg fyrir frekari tafir og flýta því eins og kostur er að framkvæmdir geti hafist. „Sveitarfélög á Vestfjörðum hafa á undanförnu sett fram sambærileg sjónarmið. Með veitingu framkvæmdaleyfis með lögum er verið að eyða óvissu um þann þátt málsins sem snýr að veitingu framkvæmdaleyfis samkvæmt gildandi lögum og fyrirbyggja þannig frekari tafir á þessari brýnu samgönguframkvæmd sem varðar ríka almannahagsmuni. Áréttað er í frumvarpinu að þrátt fyrir veitingu framkvæmdaleyfisins hefur viðkomandi sveitarfélag eftirlit með framkvæmdum samkvæmt ákvæðum skipulagslaga. Eins er gert ráð fyrir að Vegagerðin verði eftir sem áður að ljúka ákveðnum verkefnum áður en ráðist verður í framkvæmdir en þar er um að ræða rannsóknir Hafrannsóknastofnunar á botnsseti á leið Þ-H í Þorskafirði í samræmi við álit Skipulagsstofnunar og breyting á aðalskipulagi Reykhólahrepps vegna nýrra efnistökustaða,“ segir í yfirlýsingu þingmannanna sjö.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir