Sauðfjárbændur boða til aukaaðalfundar

Boðað hefur verið til aukafundar Landssamtaka sauðfjárbænda, 19. september nk. í Bændahöllinni við Hagatorg í Reykjavík. Á fundinum verður farið yfir tillögur Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur landbúnaðarráðherra að aðgerðum vegna erfiðrar stöðu í sauðfjárrækt.

Töluverð óvissa ríkir í hópi sauðfjárbænda um framtíð greinarinnar. Bændur standa frammi fyrir því að þurfa innan fárra vikna að taka ákvörðun út frá tillögum ráðherrans um stuðning til að hætta sauðfjárrækt, draga úr framleiðslu, ellegar að þreyja þorrann og taka á sig verulega kjaraskerðinu. Samkvæmt heimildum Skessuhorns hafa fæstir bændur tekið ákvörðun um hvað þeir gera, enda meðvitaðir um að tillögur ráðherrans gætu átt eftir að breytast í meðförum þings og ríkisstjórnar síðar í haust. Sömu heimildir herma að fleiri líti á að tillögur ráðherrans hvetji til að menn hætti búskap og að minni hvati verði til að draga úr framleiðslu. Flestir óttast auk þess að það verði yngri bændur og þá helst þeir sem skuldsettir eru, sem hætti framleiðslu. Ef svo færi yrði slíkt ekki til að leysa vanda greinarinnar til lengri tíma litið. Gera má ráð fyrir því að á aukaaðalfundi LS næstkomandi þriðjudag muni betur koma í ljós hvernig bændur hyggjast bregðast við afar erfiðri stöðu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir