Lambakjöt markaðssett fyrir erlenda neytendur

Í kjölfar mikillar fjölgunar erlendra ferðamanna á Íslandi hefur þörfin fyrir aðgengilegri framsetningu á íslensku lambakjöti í verslunum verið aðkallandi. Hefur hægagangur í þeirri markaðssókn verið harðlega gagnrýndur. Nú hefur verkefnið Icelandic Lamb, í samvinnu við Krónuna, Kjarval og Norðlenska, brugðist við og kynnt nýja vörulínu. Ætlunin er að ná til þeirra ferðamanna sem kjósa að elda sjálfir í stað þess að borða á veitingastöðum.

Í tilkynningu frá Icelandic Lamb segir að allar pakkningar verði með enskum texta, upplýsingum um eldunartíma eru áberandi á hverjum pakka auk þess sem hentug uppskrift fylgir. Flestar eru pakkningarnar ætlaðar fyrir einn og innihalda um 200 grömm af kjöti sem allt er unnið úr lambalærum. Vöruhönnunin er afrakstur samstarfs Icelandic Lamb, kokka og kjötiðnaðarmanna.

„Þetta er í fyrsta sinn sem lambakjöt er markaðssett sérstaklega til erlendra ferðamenna með heildstæðum hætti. Öflug kynning á samfélagsmiðlum er þegar farin af stað og litlum uppskriftabæklingum á ensku og íslensku verður dreift á útsölustöðum. Þetta er tilraunaverkefni en erlendir kaupendur hafa sýnt því áhuga að dreifa vörulínunni til sælkeraverslana í Bandaríkjunum, Japan og Evrópu allt árið um kring,“ segir í tilkynningu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir