Þessi mynd var tekin um 1940 og sýnir krikann á Langasandi sem yrði endurheimtur með breyttri legu Faxabrautar. Myndin er tekin frá Suðurgötu og kemur úr myndasafni Helga Daníelssonar.

Leggja til að nyrsti hluti Langasands verði endurheimtur

Tveir menn sem eiga rætur sínar á Akranesi skrifa í Skessuhorn vikunnar grein þar sem þeir leggja til róttækar breytingar varðandi fyrirhugaða landnýtingu á fyrrum athafnasvæði Sementsverksmiðjunnar á Akranesi. Þeir Már Karlsson verkfræðingur og Ormar Þór Guðmundsson arkitekt leggja til að Skagamenn endurheimti  þann hluta Langasands sem hvarf undir sementsþróna á sínum tíma þegar verksmiðjan var byggð. Segja þeir að nægt land verði engu að síður eftir til að byggja íbúðarhús, hótel og hvað annað. Með þessari breytingu telja þeir að tengja megi með skynsamlegum hætti gönguleiðina allt frá gamla miðbæ Akraness, um Suðurgötu og alla leið út á Langasand.

„Með því að endurheimta vesturhluta Langasands myndi gamla bæjarmyndin á þessu svæði njóta sín á ný, en hluti af henni eru Langisandur og Jaðarsbakkar. Til þess að svo megi verða þarf að breyta núverandi legu Faxabrautar þannig að hún færist nær Suðurgötu og Jaðarsbraut. Brautin mundi liggja lægra en þessar götur þannig að útsýni frá húsum við þær yrði óskert og hávaða frá umferð lítið gæta. Í þessari legu mundi einnig ágangi sjávar í stórviðrum gæta mun minna en í núverandi legu. Í stað mjúkrar beygju, áður en Faxabrautin fer yfir Jaðarsbrautina, kæmi kröpp beygja með sama radius og er í hringtorginu litlu ofar,“ skrifa þeir m.a. í grein sinni.

Sjá má myndskreytta grein þeirra í Skessuhorni vikunnar og textahluta hennar HÉR.

Líkar þetta

Fleiri fréttir