Stefán Teitur Þórðarson fangar eftir að hafa komið Skagamönnum í 1-0. Ljósm. gbh.

Skagamenn eygja enn von

ÍA vann sinn þriðja sigur í Pepsi deild karla í sumar þegar liðið sigraði KA á Akranesi í gær. Lokatölur urðu 2-0 í fínum knattspyrnuleik.

Gestirnir frá Akureyri voru sterkari í fyrri hálfleik og sköpuðu sér nokkur ágæt færi. Besta færi þeirra fékk Almarr Ormarsson á 22. mínútu. KA-menn áttu frábæra sendingu inn í teig á Almarr sem var dauðafrír en skallaði boltann yfir. Bestu færi fyrri hálfleiks voru hins vegar Skagamanna. Á 34. mínútu fékk Steinar Þorsteinsson boltann á vítateignum, átti skot að marki en Srdjan Rajkovic varði frá honum. Þaðan barst boltinn á Stefán Teit Þórðarson sem náði ekki nógu góðu skoti, beint á Rajkovic sem lá í markinu.

Á 40. mínútu dró aftur til tíðinda. Almarr og Steinar áttust við í vítateig KA-manna. Almarr var dæmdur brotlegur og Skagamönnum dæmd vítaspyrna. Þórður Þorsteinn Þórðarson steig á punktinn en spyrnan var ekki nægilega góð og Rajkovic varði frá honum. Ólafur Valur Valdimarsson náði frákastinu og skaut að marki af stuttu en þröngu færi en Rajkovic lokaði vel á hann og varði aftur. KA-menn héldu áfram að skalla að marki Skagamanna en tókst ekki skapa neina teljandi hættu við mark Skagamanna. Staðan í hálfleik var markalaus.

Jafnt var á með liðinum framan af fyrri hálfleik en hvorugt lið náði að skapa sér afgerandi marktækifæri, þar til á 60. mínútu. Þá skoraði Stefán Teitur úr eins færi og hann fékk í fyrri hálfleik. Arnar Már Guðjónsson átti þá skot að marki sem Rajkovic varði. Boltinn féll fyrir fætur Stefáns Teits sem brást ekki bogalistin að þessu sinni heldur lagði hann í markhornið. Skagamenn komnir yfir, 1-0.

KA-menn sóttu stíft eftir markið en lið ÍA féll mjög aftarlega á völlinn og freistaði þess að verja forskot sitt. Gestirnir höfðu hins vegar ekki erindi sem erfiði því tíu mínútum síðar komust Skagamenn í 2-0. Albert Hafsteinsson átti þá skot af löngu færi beint á Rajkovic markmann. Hann gerði hins vegar afdrifarík mistök, missti boltann frá sér fyrir fætur Steinars Þorsteinssonar sem þakkaði pent fyrir sig og skoraði auðveldlega.

Reyndist mark Steinars vera síðasta mark leiksins og Skagamenn höfðu því 2-0 sigur á KA og sóttu um leið þrjú afar mikilvæg stig í fallbaráttunni. ÍA hefur 13 stig í botnsæti deildarinnar og er sex stigum á eftir ÍBV í næstneðsta sæti en sjö stigum á eftir Víkingi Ó. og Fjölni í sætunum fyrir ofan fall. ÍA mætir einmitt Fjölni á útivelli í næstu umferð. Sá leikur fer fram fimmtudaginn 14. september næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir