Pape Mamadou Faye skorar fyrsta mark Víkings með góðum skalla. Ljósm. af.

Jafnt í ótrúlegum fallbaráttuslag

Víkingur Ó. og Fjölnir mættust í mögnuðum fallbaráttuslag í Pepsi deild karla í knattspyrnu á laugardaginn. Leikurinn fór fram í Ólafsvík og þar réði dramatíkin ríkjum. Lyktaði leiknum með 4-4 jafntefli. Víkingur missti niður 3-0 forskot en náðu að jafna á elleftu stundu og tryggja sér stig úr leiknum.

Víkingar skoruðu fyrsta mark leiksins strax á 6. mínútu úr sinni fyrstu sókn. Eivinas Zagurskas tók aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Fjölnis. Hann sendi boltann inn í teiginn, beint á kollinn á Pape Mamadou Faye sem skoraði með hörkuskalla.

Á 19. mínútu sýndi Kwame Quee skemmtilega takta á hægri kanti. Hann lék illa á tvo varnarmenn Fjölnis, sendi síðan hnitmiðaða fyrirgjöf inn á markteig á Kenan Turudija sem skoraði með viðstöðulausu skoti og kom Víkingi í 2-0.

Ólafsvíkingar léku á als oddi og komust í 3-0 á 26. mínútu. Emir Dokara senda háan bolta fram völlinn, inn fyrir vörn Fjölnis þar sem Þorsteinn Már Ragnarsson var sloppinn einn í gegn og skoraði framhjá markverði gestanna. Staða norðin 3-0 og Víkingar virtust ætla að fara með öruggan sigur af hólmi.

En svo varð ekki. Aðeins þremur mínútum síðar minnkaði Fjölnir muninn í 3-1. Linus Olsson tók á móti löngum bolta framarlega á vellinum. Hann náði að snúa af sér varnarmann og skora framhjá Christian Martinez í markinu.

Enn átti mörkunum eftir að fjölga því á 36. mínútu var send löng sending inn í vítateig Víkings. Boltinn féll fyrir fætur Ingimundar Níels Óskarssonar sem skoraði með skoti af markteig og staðan orðin 3-2.

Í þann mund sem ótrúlegur fyrri hálfleikur var að renna sitt skeið á enda fengu Víkingar dauðafæri. Pape átti þá skot af markteig sem Þórður Ingason varði í marki Fjölnis.

 

Dramatískar lokamínútur

Leikmenn Fjölnis voru sterkari framan af síðari hálfleik. Þeir sóttu af krafti og jöfnuðu metin á 60. mínútu. Eftir misskilning í öftustu línu Víkings náði Linus boltanum og sendi hann í autt markið. Skömmu síðar munaði litlu að Fjölnir kæmist yfir. Marcus Solberg átti þrumuskalla en Christian varði meistaralega í markinu.

Leikurinn datt aðeins niður næstu 15 mínúturnar eða svo en dramatíkin var hreint ekki á enda. Fjölnir fullkomnaði endurkomuna þegar liðið komst yfir á 82. mínútu leiksins. Christian varði vel skalla frá Ægi Jarli Jónssyni af stuttu færi. Boltinn féll út í teiginn og eftir nokkurn darraðadans var það Hans Viktor Guðmundsson sem kom boltanum yfir línuna og Fjölni yfir í fyrsta sinn í leiknum.

En Fjölnir var ekki lengi í forystu. Á 86. mínútu áttu Kenan og Þorsteinn Már góðan þríhyrning við vítateig Fjölnis sem endaði með því að Kenan sendi boltann í stöngina og inn og jafnaði metin í 4-4. Það varð lokastaðan í ótrúlegum leik Víkings og Fjölnis í Ólafsvík.

Víkingar sitja í 10. sæti deildarinnar með 20 stig eftir leikinn á laugardag, rétt eins og Fjölnir í sætinu fyrir ofan en stigi á undan ÍBV í næsta sæti fyrir neðan.

Næst mætir Víkingur liði Stjörnunnar á útivelli fimmtudaginn 14. september næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir