Aldís Ylfa Heimisdóttir var í leikslok valin maður leiksins. Hlaut hún að launum gjafabréf fyrir tvo í jöklaferð frá Arnarstapa. Á meðfylgjandi mynd afhendir Magnús Guðmundsson, stjórnarformaður KFÍA, Aldís Ylfu gjafabréfið. Ljósm. kfia.is

Stórsigur ÍA stúlkna í lokaleik 1. deildar

Stelpurnar í 1. deild ÍA í knattspyrnu áttu í gær stórleik í lokaumferð deildarinnar í sumar. Mættu þær Sindra frá Hornafirði á Akranesvelli og endaði viðureignin 6:0 fyrir gestgjafana. Skagastúlkur höfðu mikla yfirburði í leiknum, héldu boltanum vel og spiluðu almennt góðan fótbolta. Fyrsta markið kom á þriðju mínútu leiksins þegar Bergdís Fanney Einarsdóttir renndi boltanum í markið eftir fyrirgjöf frá Unni Ýr Haraldsdóttur. Aldís Ylfa Heimisdóttir bætti við öðru markinu á tólftu mínútu með fallegu skoti af hægri kantinum. Fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleik þrátt fyrir nokkur góð færi.

Aldís Ylfa skoraði sitt annað mark og þriðja mark ÍA á 66. mínútu áður en hún lagði upp fjórða markið fyrir Unni Ýr. Á 87. mínútu átti Hrafnhildur Arín Sigfúsdóttir góða fyrirgjöf frá hægri sem Ruth Þórðar Þórðardóttir skallaði í markið, en Hrafnhildur bætti svo sjálf við sjötta markinu með góðum skalla eftir hornspyrnu. Lokatölur urðu 6:0 eins og fyrr segir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir