Kraftlyftingafélag Akraness á sex keppendur í mótunum á Akranesi um helgina. Einn þeirra er Einar Örn Guðnason, margfaldur Íslands- og bikarmeistari í Kraftlyftingum. Ljósm. fengin af Facebook-síðu RIG.

„Þetta verður svakaleg kraftlyftingaveisla“

Íslandsmeistaramótin í réttstöðulyftu, bekkpressu og klassískri bekkpressu fara fram nú um helgina í íþróttahúsinu við Vesturgötu á Akranesi. Keppt verður í bekkpressu á morgun, laugardag, fyrst í klassískri bekkpressu frá klukkan 10 að morgni og síðan bekkpressu með útbúnaði frá klukkan 15. Á sunnudeginum verður síðan keppt í réttstöðulyftu. Það mót hefst klukkan 12 á hádegi.

Mótshaldari er Kraftlyftingafélag Akraness og Lára Bogey Finnbogadóttir er mótsstjóri. Hún segir að þetta vera í fyrsta sinn sem þessi þrjú mót eru haldin saman. „Bekkpressumótin hafa verið í febrúar og mars en réttstöðumótið jafnan í september. Undanfarið hefur orðið svo mikil fjölgun í mótum að ákveðið var að prófa að hafa þetta svona og keyra þessi þrjú mót saman á einni helgi,“ segir Lára í samtali við Skessuhorn.

Fulltrúar Kraftlyftingafélags Akraness á mótunum um helgina verða sex talsins. „Við eigum sex keppendur á þessum mótum. Tveir af okkar bestu yngri keppendum, þeir Svavar Örn Sigurðsson og Arnar Harðarson munu reyndar ekki taka þátt að þessu sinni. Svavar er á leið á Norðurlandamót unglinga í vikunni á eftir og Arnar er meiddur,“ segir hún og bætir því við að heilt yfir sé skráningin góð; 39 munu keppa í klassískri bekkpressu, 16 í bekkpressu með útbúnaði og 36 í réttstöðulyftu og meðal keppenda er allt fremsta kraftlyftingafólk landsins. „Hvert mót er stórmót og margir rosalega góðir keppendur hafa boðað komu sína. Til dæmis eru skráð til leiks Fanney Hauksdóttir, Norðurlandameistara í klassískri bekkpressu, og Júlían J.K. Jóhannsson, heimsmeistari í réttstöðulyfti. Síðan ætlar okkar maður Einar Örn Guðnason að keppa, en hann er margfaldur Íslandsmeistari í kraftlyftingum. Þannig að þetta verður svakaleg kraftlyftingaveisla og ég hvet alla sem hafa áhuga á kraftlyftingum til að líta við á Vesturgötunni um helgina. Það verður frítt inn og allir velkomnir,“ segir Lára að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir