Hér eigast við þær Mary Essiful, leikmaður Víkings og Aldís Ylfa Heimsdóttir, leikmaður ÍA, í fyrri viðureign liðanna í sumar. Ljósm. gbh.

Skagakonur höfðu sigur í Ólafsvík – Víkingskonur fallnar

Víkingur Ó. og ÍA mættust í Vesturlandsslag 1. deildar kvenna í knattspyrnu síðastliðinn laugardag. Leikið var í Ólafsvík þar sem aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru ekki þær bestu. Rigning og ekki síst rokið átti eftir að setja verulega mark sitt á leikinn sem Skagakonur sigruðu með tveimur mörkum gegn einu.

Heimakonur voru betri í upphafi leiks og náðu forystunni strax á 5. mínútu þegar Birta Sól Vilbergsdóttir kom Víkingi yfir. Víkingsliðið náði annars ekki að ógna marki gestanna að ráði það sem eftir lifði hálfleiksins, fengu nokkur hálffæri en engin ákjósanleg marktækifæri. ÍA var sterkara lið vallarins en þrátt fyrir fleiri færi tókst þeim ekki að jafna metin. Staðan í hléinu var því 1-0 fyrir Víkingi.

Skagakonur mættu gríðarlega ákveðnar til síðari hálfleiks, ætluðu sér að jafna metin og það sem allra fyrst. Það tókst á 52. mínútu þegar Unnur Ýr Haraldsdóttir skoraði með góðu skoti. ÍA réði lögum og lofum á vellinum það sem eftir lifði leiksins en þrátt fyrir góðar sóknir vantaði alltaf herslumuninn upp á að koma boltanum í netið. Víkingskonur áttu hins vegar erfitt uppdráttar.

Þegar komið var fram í uppbótartíma var staðan enn jöfn, 1-1 og allt útlit fyrir að lyktir leiksins yrðu jafntefli. En svo varð ekki. ÍA fékk hornspyrnu og boltanum var spyrnt fyrir markið. Vindurinn greip boltann með sér og sveif hann í fjærhornið. Þegar boltinn var í þann mund að svífa yfir línuna sló Birta Guðlaugsdóttir, markvörður Víkings, boltann upp í þaknetið og var markið skráð sem sjálfsmark hennar. Skömmu síðar var leikurinn flautaður af og 1-2 sigur ÍA staðreynd.

Skagakonur hafa 24 stig í 5. sæti deildarinnar þegar einn leikur er eftir í mótinu, jafn mörg og ÍR í sætinu fyrir neðan en sex stigum á eftir Keflavík í næsta sæti fyrir ofan. Lokaleikur ÍA í sumar fer fram laugardaginn 9. september þegar liðið mætir Sindra á Akranesvelli.

Víkingskonur eru aftur á móti fallnar úr deildinni. Þær hafa 11 stig í 9. og næstneðsta sæti fyrir lokaumferðina, sex stigum á eftir Hömrunum í sætinu fyrir ofan. Síðasti leikur Víkings er útileikur gegn Keflavík. Hann fer einnig fram næstkomandi laugardag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir