Kári leikur í 2. deild að ári

Lið Kára frá Akranesi tryggði sér sigur í 3. deild karla í knattspyrnu með 2-0 sigri á Einherja á sunnudag. Leikurinn fór fram fyrir troðfullri Akraneshöll, en tæplega 400 manns fylgdust með þegar Káramenn innsigluðu toppsæti deildarinnar og þar með sæti í 2. deild að ári. Það voru þeir Alexander Már Þorláksson og Jón Vilhelm Ákason sem skoruðu mörk Kára.

Þetta er í fyrsta sinn í sögu Kára sem liðið tryggir sér sæti í 2. deild. Félagið var stofnað í núverandi mynd árið 2011 og lék þá í gömlu 3. deildinni, en vann sér keppnisrétt í nýju 3. deildinni þegar 4. deild var stofnuð árið 2012. Liðið féll úr 3. deild og niður í þá 4. árið 2013 en komst strax upp árið eftir og hefur leikið þar undanfarin þrjú keppnistímabil.

Lúðvík Gunnarsson, þjálfari Kára, var að vonum ánægður þegar Skessuhorn sló á þráðinn til hans. „Ég er gríðarlega ánægður með liðið. Þetta er það sem við og allir sem koma að liðinu stefndum að,“ segir Lúðvík í samtali við Skessuhorn. „Ég er ánægður með spilamennsku liðsins í sumar, heilt yfir. Við skoruðum mörg mörk og fengum fá á okkur. Að mínu mati erum við með sterkasta liðið í þessari deild og eigum skilið að fara upp. Ég er mjög ánægður með strákana í liðinu. Það hefur verið góð samkeppni í því í allt sumar og strákarnir tilbúnir að leggja mikið á sig til að ná þessu markmiði. Þeir eiga algjörlega heiðurinn af því að koma liðinu upp um deild,“ segir Lúðvík.

Líkar þetta

Fleiri fréttir