Birgir Leifur sigraði á áskorendamótaröðinni í golfi

Golfarinn Birgir Leifur Hafþórsson fagnaði sínum fyrsta sigri á áskorendamótaröðinni í golfi en mótinu lauk í dag í Frakklandi. Birgir var með sjö högga forskot fyrir lokahringinn og stóð því uppi sem sigurvegari, en fella þurfti niður lokaumferðina sökum úrkomu. Þetta er í fyrsta sinn á löngum ferli Birgis Leifs sem hann nær að sigra á atvinnumóti erlendis, en áskorendamótaröðin er næst sterkasta atvinnumótaröðin í Evrópu. Birgir setti mótsmet þrátt fyrir að hafa ekki leikið nema 54 holur en hann lék hringina þrjá á -18 samtals (63-65-64). Gamla mótsmetið var -15 á 72 holum. Í frétt á vef Golfsambandsins segir að mótshaldarar hafi ákveðið að fella niður lokaumferðina þegar fyrstu keppendur höfðu farið út á völlinn í morgun. Fyrir sigurinn fékk Birgir Leifur 4,3 milljónir króna að launum. Alls hefur hann fengið um 6,4 milljónir króna í verðlaunafé á þessu tímabili á alls ellefu mótum.

Birgir Leifur hóf atvinnumannaferilinn árið 1997 og hefur aldrei leikið betur en í ár á áskorendamótaröðinni. Með sigrinum fer hann upp í 16. sæti á stigalistanum á áskorendamótaröðinni og eygir nú keppnisrétt á sjálfri Evrópumótaröðinni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir