Gómaður við spúnveiðar úr laxastiganum við Glanna

Seint í gærkvöldi var franskur ferðamaður staðinn að verki þar sem hann var við spúnveiðar úr laxastiganum við Glanna í Norðurá. Magnús Fjeldsted veiðivörður segir í samtali við Skessuhorn að sér hafi verið gert viðvart á tíunda tímanum í gærkvöldi um að tveir menn væru þarna á ferð. Hann hélt á staðinn og gerði jafnframt lögreglu viðvart sem mætti einnig til skýrslutöku af manninum. „Maðurinn var einn þegar ég kom á svæðið og fisklaus. Hann var greinilega meðvitaður um að hann væri að brjóta lög og þegar honum var tilkynnt um að þetta yrði lögreglumál skyldi hann allt í einu ekki stakt orð í ensku,“ segir Magnús. Hann segir að lögregla hafi rætt við manninn með aðstoð Google translate þýðingarforritsins. „Veiðifélagið mun að öllum líkindum leggja fram kæru eins og tíðkast í svona málum og má maðurinn búast við hárri fjársekt áður en hann heldur úr landi,“ segir Magnús.

Líkar þetta

Fleiri fréttir