Hallgrímskirkja í Saurbæ sextíu ára

Næstkomandi sunnudag verður þess minnst með hátíðarguðsþjónustu klukkan 14 í Hallgrímskirkju í Saurbæ að 60 ár eru liðin frá vígslu kirkjunnar. Þar mun sr. Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup prédika og sr. Kristinn Jens Sigurþórsson sóknarpresturinn þjóna fyrir altari. Kór Saurbæjarprestakalls, undir stjórn Zsuzsönnu Budai, syngur suma þekktustu sálma Hallgríms Péturssonar og María Jónsdóttir sópran syngur einsöng. Að messu lokinni verður öllum viðstöddum boðið að þiggja veitingar á Hótel Glymi.

Hallgrímskirkja var vígð 28. júlí 1957. Kirkjan er helguð minningu Hallgríms Péturssonar, sem var þar sóknarprestur árin 1651-69. Árið 1934 var efnt til samkeppni um teikningu að kirkjunni en engin þeirra hlaut náð fyrir augum dómnefndar. Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins, var falið að teikna kirkjuna. Undirstöður voru steyptar en verkinu var frestað vegna síðari heimsstyrjaldarinnar. Að Guðjóni látnum var Sigurði Guðmundssyni og Eiríki Einarssyni, arkitektum, falið að teikna nýja kirkju árið 1953. Hún var minni og einfaldari en hin fyrri en reist á hinum tilbúna grunni og vígð sumarið 1957 eins og áður segir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir