Bleikar og bláar heyrúllur til stuðnings baráttu við krabbamein

Þeir sem leið hafa átt um sveitir landsins hafa í sumar tekið eftir því að heyrúllur eru ekki lengur í sauðalitunum, svartar eða hvítar. Ýmsir fleiri litir eru komnir í þá flóru, meðal annars grænar en einnig bleikar og ljósbláar. Nú hafa bændur, dreifingaraðilar og framleiðandi heyrúlluplasts líkt og í fyrrasumar tekið höndum saman og efla vitund um brjóstakrabbamein og blöðruhálskrabbamein. Sala á þessu plasti styrkir Krabbameinsfélagið til rannsókna á sjúkdómunum.

Í fyrrasumar sló uppátækið „Bleikar heyrúllur“ í gegn en um var að ræða átak bænda, dreifingaraðila og framleiðanda heyrúlluplasts um að minna á árvekni um brjóstakrabbamein og styrkja málefnið á sama tíma. Framleiðandinn Trioplast, innlendir dreifingaraðilar og bændur, lögðu samtals fram andvirði þriggja evra af hverri seldri bleikri plastrúllu sem hver dugir á 26 bleikar heyrúllur á túni ef vafið er sexfalt. 900 þúsund krónur söfnuðust í átakinu sem notaðar voru til endurnýjunar tækja til brjóstamyndatöku í Leitarstöð Krabbameinsfélagsins.

 

Nú bláar rúllur að auki

Nú í sumar eru bláar heyrúllur einnig sjáanlegar á túnum og í heystæðum bænda og er markmiðið með sölu bláa plastsins að minna á árvekni um blöðruhálskrabbamein. Þrjár evrur af sölu hverrar bleikrar rúllu munu renna til vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins og rannsókna á brjóstakrabbameini og að sama skapi munu þrjár evrur af sölu hverrar blárrar rúllu renna til vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins og rannsókna á blöðruhálskrabbameini.

Framleiðandi heyrúlluplastsins er Trioplast en fyrirtækið er sænskt og hafa vörur félagsins verið til sölu á Íslandi í meira en tvo áratugi. Dreifingaraðilar plastsins eru m.a. Bústólpi, Kaupfélag Borgfirðinga og KM þjónustan í Búðardal.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Skógardagur í Skorradal

Á morgun, laugardaginn 23. júní, verður haldinn skógardagur í Selskógi í Skorradal. Verkefnið er samstarfsverkefni þriggja máttarstólpa í skógrækt á... Lesa meira