Hér fagna Ólsarar fyrsta marki leiksins en það kom eftir stórglæsilega aukaspyrnu Eivinas Zagurskas. Ljósm. af.

Víkingur styrkti stöðu sína í deildinni

Víkingur Ólafsvík fékk Grindavík í heimsókn í fjórtán umferð Pepsideildar karla í knattspyrnu í gær. Ólsarar hafa undanfarið verið að styrkja stöðu sína í deildinni eftir brösótta byrjun á mótinu. Hélt Víkingur því áfram í gær þegar liðið sigraði eftir fjörugan leik 2-1 með mörkum frá Eivinas Zagurskas og Kenan Turudija.

Það höfðu aðeins liðið nokkrar sekúndur af leiknum þegar Björn Berg Bryde braut á Kwame Quee rétt fyrir utan vítateig Grindavíkur og aukaspyrna dæmd. Eivinas Zagurskas sem nýlega gekk til liðs við Víking tók spyrnuna og skoraði með því að negla boltanum í markmannshornið þar sem Kristjan Jajalo markmaður Grindvíkinga kom engum vörnum við. Staðan því orðin 1-0 þegar um mínúta var komin á vallarklukkuna. Grindvíkingar voru meira með boltann í fyrri hálfleik en það voru Ólsarar sem sköpuðu sér hættulegustu færin og segja má að þeir hafi verið óheppnir að bæta ekki við öðru marki í fyrri hálfleik. Bæði Guðmundur Steinn Hafsteinsson og Eivinas fengu mjög góð skallafæri en brenndu báðir illa af færum sínum. Staðan því 1-0 þegar flautað var til hálfleiks.

Eftir fjörugan fyrri hálfleik þar sem nóg af færum fór síðari hálfleikur heldur rólega af stað og lítið sem ekkert gerðist fyrsta korterið. Á 61. mínútu fengu Grindvíkingar aukaspyrnu á vallarhelmingi Víkings. Brynjar Ásgeir Guðmundsson tók spyrnuna og gaf fyrir markið þar sem Andri Rúnar Bjarnason stýrði boltanum í netið á stórglæsilegan hátt og tók þar með aftur forystu í kapphlaupinu um gullskóinn.

Við markið fór aftur að færast líf í leikinn líkt og í fyrri hálfleik. Á 67. mínútu slapp Pape Mamadou Faye einn inn fyrir vörn Grindvíkinga og Jajalo hljóp út á móti honum til að freista þess að ná til knattarins. Pape var undan í boltann og var í þann mund að komast framhjá Jajalo þegar hann braut á Pape og vítaspyrna réttilega dæmd. Kenan Turudija fór á vítapunktinn og skoraði af öryggi og kom Ólsurum aftur í forystu.

Síðustu tuttugu mínútur leiksins gerðu Grindvíkingar harða atlögu að marki Víkings og fengu þeir mörg dauðafæri sem þeir hefðu getað nýtt sér. Cristian Martinez markmaður Ólafsvíkur átti stórkostlegan leik og varði glæsilega margsinnis undir lok leiksins. Grindvíkingar komu boltanum ekki framhjá honum og lauk leiknum því með 2-1 sigri Víkings.

Eins og áður segir hefur Víkingur styrkt stöðu sína í deildinni og eru nú í tíunda sæti, þremur stigum frá fallsæti. Það er mjög mikilvægur leikur framundan hjá Víkingi næstkomandi miðvikudag þar sem liðið mætir ÍBV sem er í ellefta sæti. Með sigri í þeim leik kemst Víkingur í mjög vænlega stöðu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir